7.12.2007 | 01:26
194. - Bæjarsjóður Kópavogs
Mikið er linkað í frétt mbl.is um símahrekk Vífils.
Það er ein af sérviskum mínum að linka ekki í fréttir á mbl.is. Það var lengi vel önnur sérviska hjá mér að nota ekki fyrirsagnir. Nú er ég farinn til þess. Kannski fer fyrrnefnda sérviskan einhvern tíma sömu leið.
Ekki fer hjá því að þetta framtak Vífils vekur talsverða athygli. Einhvers staðar sá ég það haft eftir honum að það væri greinilega ekki hægt að treysta Hvíta Húsinu, því hann hefði sagt að símanúmer sitt væri leyninúmer og ekki mætti segja neinum frá því. Þetta finnst mér þunn og vesæl afsökun. Símahrekkir geta oft verið fyndnir og afhjúpa stundum alvarlegar gloppur, en að öðru leyti finnst mér þetta ekki sérstaklega merkilegt.
Einhverjir fjölvitringar á fréttamiðlum þóttust reikna það út um daginn að það að ganga ákveðna vegalengd losaði meira magn af gróðurhúsalofttegundum en ef sama vegalengd væri ekin. Ekki nóg með að það megi helst ekki éta annað en kál og gras, nú má ekki heldur ganga. Ja, það er orðið vandlifað í veröldinni.
Um daginn fékk ég tvær tilkynningu frá Landsbankanum um að kröfur hefðu ekki verið greiddar og þessvegna verið endursendar. Þetta voru kröfur frá Bæjarsjóði Kópavogs. Örugglega vegna fasteignagjalda. Ekki var neitt um þessar rukkanir að finna í heimabankanum svo ég tók tilkynningarnar með mér næst þegar ég þurfti að fara í útibú Landsbankans fyrir ofan gjána miklu. Þar skoðaði þjónustufulltrúi bréfin tvö og fletti upp á einhverju í tölvunni hjá sér og sagði að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa af þessu, því kröfurnar hefðu verið greiddar 4. september.
Ég er nú svo tortrygginn að ég ákvað samt að hringja í Bæjarsjóð Kópavogs og ganga úr skugga um að ég væri ekki í einhverri skömm þar. Símaskrár er að mestu hætt að nota á mínu heimili, svo ég leitaði bara á simaskra.is sem oftast reynist mér nokkuð vel. En ekki í þetta sinn.
Fyrst prófaði ég að slá inn "Bæjarsjóður Kópavogs". Það bar engan árangur. Næst prófaði ég "Kópavogur". Ekki var það betra. Þá prófaði ég að gúgla þetta. Upp kom eitthvað um ársreikninga og þess háttar sem ég hafði lítinn áhuga á. Þá var næst að prófa "Kópavogskaupstaður" Þá fékk ég upp eitthvað um Sýslumanninn í Kópavogi og Tónlistarskóla Kópavogs. Ekki nákvæmlega það sem ég var að leita að. Nú prófaði ég að slá einfaldlega kopavogur.is inn í vafrann. Jú, vissulega fékk ég ýmsar upplýsingar þar, en ekkert sá ég um símanúmer hjá Bæjarsjóði Kópavogs.
Nú leist mér ekki orðið á blikuna, en fékk allt í einu hugljómun og skoðaði betur bréfið frá Landsbankanum. Þar stóð að eigandi kröfunnar væri Kópavogsbær. Þegar ég sló það orð síðan inn á leitarvef símaskrárinnar fékk ég alveg óvænt símanúmer sem ég gat notað. Þar fékk ég sömu svör og í bankanum. Kröfurnar hefðu verið greiddar 4. september og ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. Nú get ég semsagt verið alveg rólegur þangað til einhverjir menn koma til að taka lögtak fyrir þessum ógreiddu kröfum. Já, ég er svona svartsýnn.
Í sjónvarpinu í kvöld var frétt um eitthvað sem var verið að gera í einhverjum skóla. Síðan var sagt: "Við litum við í skólanum í dag." Greinilegt var að átt var við að þangað hefði verið farið. Myndir voru sýndar þaðan og ekki að sjá að neinn hefði litið við.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.