193. - Moggablogg og símahrekkir

Arnþór Helgsason segir á sínu bloggi og er að tala um sjónvarp mbl.is "Ástæða er til að óska þeim mbl-mönnum til hamingju með árangurinn. Mbl.is er ennþá langfremsti vefmiðill landsins." Það vill svo til að ég þekki Arnþór Helgason dálítið og ég veit að hann hefur gott vit á þessu.

 

"Það er satt sem sagt er...það er fátt heimskara en Moggabloggið.
Ef Moggabloggið væri maður þá héti hann Georg Bjarnfreðarson."

Þetta er heil færsla sem Máni Atlason setur á bloggið sitt. Ég ætla ekki að fjölyrða um hversu fyndið þetta er. Hann gætir sín að segja Moggabloggið en ekki Moggabloggarar. Sennilega er hann samt sammála Stefáni Pálssyni um að Moggabloggið sé dautt.

Eitt af þeim bloggum sem ég les yfirleitt alltaf er blogg Hörpu Hreinsdóttur. Hún er prýðilegur bloggari, en af einhverjum ástæðum er henni einkar lagið að espa fólk á móti sér. Nú virðist hún vera komin í hörkudeilur um trúmál og ég ætla ekkert að skipta mér af þeim þó ég hafi að sjálfsögðu skoðanir á því sem þar er um rætt.

Þau Harpa og Máni tala líka um símahrekk Vífils og Máni segir frá honum í sínu bloggi. Mér finnst bara að fólk þurfi að athuga að þegar símahrekkir ná til annarra landa þá má alltaf búast við viðbrögðum sem ekki er að öllu leyti fyrirsjáanleg.

Ég bloggaði eitthvað í gær um klórlekann í Laugaskarði og önnur mál í framhaldi af því. Í sjónvarpinu í kvöld var frétt um þetta og sagt að allt kvikt hefði drepist fyrir neðan þann stað þar sem klórinn fór í ána. Þetta getur vel verið rétt, en athyglisvert þótti mér að allar þær myndir sem birtar voru með fréttinni voru teknar ofan við nefndan stað. Líka er það ámælisvert að ekki skuli í fréttinni vera gerð grein fyrir því hvaða Varmá er um að ræða.

Ráðherrar í ríkisstjórninni þykjast nú ætla að fara að gera eitthvað fyrir aldraða og öryrkja. Best væri ef fólk fengi að vera í friði fyrir misvitrum stjórnvöldum, en ekki er boðið uppá það. Samt held ég að þetta fólk vilji vel og enginn vafi er á því í mínum huga að kjör fólks hafa batnað mikið undanfarna áratugi. Ekki er það þó stjórnvöldum að þakka nema með óbeinum hætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Má ekki telja það nokkuð gott, svona miðað við allt og allt, að myndirnar skyldu vera frá réttri Varmá?

Sigurður Hreiðar, 6.12.2007 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband