189. - Stigið í spínatið

Heyrði í RUV um daginn sagt um Verkamannaflokkinn í Bretlandi að hann hefði stigið í spínatið.

Þetta er orðtak sem ég minnist ekki að hafa heyrt áður. Kannski er það bara bein þýðing. Samt er þetta ágætis orðtak, einkum vegna þess að það er tiltölulega auðskilið. Þ.e.a.s. ef það þýðir það sem ég held. Nefnilega að gera í buxurnar, leika af sér, gera sig sekan um einhvers konar afglöp eða þess háttar. Algengara er að heyra fréttamenn afbaka þekkta málshætti en koma með nýja.

Í útvarpinu (ruv.is) í kvöld,fimmtudagskvöld um sexleytið var talað um Frakkarstíg. (alveg greinilega) Hann hlýtur samt að heita Frakkastígur. Hitt er bara bull. Skýst þó skýrir séu. Venjulega eru þeir hjá RUV ekki slæmir í þessu, heldur með þeim bestu. Þessvegna gerir maður ósjálfrátt kröfur til þeirra.

Sigurður Þór er í botnhreinsun segir hann. Sennilega hendir hann mér út af sínum bloggvinalista aftur fyrir að segja þetta. Ég er alltaf að blogga eitthvað um hann. Mér finnst bara hans skrif svo miklu merkilegri en margt annað.

Sigurður Hreiðar gerir athugasemd við pistilinn sem ég skrifaði um daginn um þýskutímann hjá Herði Haralds. Ég svaraði honum þar, þó athugasemdin hafi komið svolítið eftirá og þessvegna hætta á að einhverjir missi af henni eins og alltaf er með síðbúnar athugasemdir. Bendi bara þeim sem áhuga hafa á málefninu að skoða þessa færslu aftur.

Bifrastartíminn var merkilegur. Margs er að minnast þaðan og vel getur verið að ég skrifi eitthvað um það fljótlega. Kennararnir eru margir eftirminnilegir og áhættulaust fyrir mig að skrifa það sem mér dettur í hug um þá.

Þetta blogg er eiginlega mest af skyldurækni gert. Ég er nefnilega búinn að venja mig á að blogga daglega og finnst ég helst ekki geta svikið þessa sem lesa það sem ég skrifa, þó þeir séu ekki ákaflega margir. Auðvitað væri vitið meira að blogga sjaldnar og vanda sig betur.

Bjarni frændi skrifar skemmtilegan pistil um feril sinn sem kaffidama í bókakaffinu sínu. Þangað þarf ég endilega að koma einhverntíma. Mér hefur alltaf fundist merkilegt að heyra hann titlaðan bóksala. Í mínum augum hefur hann alltaf verið blaðamaður og útgefandi og síðan að sjálfsögðu þingmaður nú uppá síðkastið. Ég á líka eftir að skoða Draugasafnið á Stokkseyri en Bjarni hafði einmitt afskipti af stofnun þess á sínum tíma og hefur kynnt það fyrir mörgum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 2.12.2007 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband