29.11.2007 | 04:32
188. - Hugsandi heimilistæki
Svo tekur hann öðru hvoru upp á að hita sig og eyða vatni. Þetta er einkum pirrandi núna þegar búast má við frosti og að sífelldar vatnsgjafir þynni út frostlöginn í kerfinu. Stundum fer þjófavarnarkerfið í bílnum af stað með miklum látum og veldur stressi og vandræðum þangað til manni tekst loksins að slökkva á því. Já, ég held að bílar séu miklir stressvaldar. Einkum ef þeir eru farnir að eldast og venja sig á einhverja dynti.
Fyrir nokkrum mánuðum keyptum við ódýra kaffivél. Ég var bara ánægður með hana í byrjun. Þegar hún var búin að hella uppá pípti hún glaðlega til að láta vita af því. Reyndar var hún fullfljótfær því ef maður tók mark á henni mátti búast við að kaffi sullaðist á hitaplötuna. Svo virtist hún vera prógrammeruð til að halda kaffinu heitu í tvo tíma. Að þeim tíma liðnum pípti hún með vonbrigðastunum og gafst upp á að bíða.
Svo gafst hún alveg upp um daginn og ekki var nokkur leið að kveikja á henni. Við gáfum hana ekki upp á bátinn alveg strax, heldur fékk hún að vera á sínum stað í nokkrar vikur, en við leystum kaffivandamálin með öðrum hætti, án þess þó kaupa nýja kaffivél. Þetta er ekki sú fyrsta sem hættir störfum hjá okkur. Fyrir nokkrum dögum byrjaði vélin aftur að láta að sér kveða og allt í einu var hægt að kveikja á henni og nú pípir hún öðru hvoru eins og ekkert hafi ískorist.
Sjónvarpið er tekið upp á þessu sama. Öðru hvoru slökknar á því og ekki er hægt að kveikja á því aftur fyrr en eftir dálitla stund. Það tókst reyndar að plata það svolítið og ná hljóðinu úr útsendingunni í hátalara sem Benni smíðaði af mikilli snilld. Nú heyrum við semsagt í því þó slökkni á myndlampanum og í fréttum dugar það oftast ágætlega. Það er hvort eð er ekki margt annað en fréttir sem tekur því að horfa á í imbakassanum.
Sem minnir mig á að þegar ég vann uppi á Stöð tvö sagði Marínó Ólafsson hljóðmeistari eitt sinn við mig að myndir í sjónvarpi væru yfirleitt bara til skrauts. Það væri hljóðið sem öllu máli skipti. Marínó, sem dó úr krabbameini langt um aldur fram, hafði meira vit á þessu en flestir aðrir.
Tölvan er líka stundum í ótrúlegu letistuði. Fangaráðið er auðvitað oftast að endurræsa hana og byrja uppá nýtt. Stundum þegar ekkert gengur að ná sambandi við Netið er gott að slökkva á ráternum líka og láta hann ná sambandi að nýju. Þegar hægt gengur og illa er auðvitað alltaf vafamál á hvorum endanum eða hvar á leiðinni tafirnar eru. Mér blöskraði þó alveg um daginn þegar tölvuræksnið tilkynnti mér að það mundi taka rúmlega tvo og hálfan klukkutíma að ná í tíu megabæta videóspilara sem ég þurfti á að halda. Benni gat náð í þennan spilara á örstuttum tíma með almennilegri tölvu.
Athugasemdir
Hehehe... nú er skrattanum skemmt. Ætli margir kannist ekki við þessi blessuð tæki sem virðast stundum hafa sjálfstætt líf og aldrei taka tiltali. Og það er svo dýrt að láta gera við minni tækin að það borgar sig oft frekar að kaupa ný. Slíkt fer þó eftir aðstæðum.
Ég er ennþá að nota vinnumyndbandstækið sem ég keypti 1987 og eðli málsins samkvæmt er mikið búið að þjösnast á. Núorðið fer ég með það í viðgerð og yfirhalningu ca. annað hvert ár og er búin að borga fyrir það andvirði nokkurra nýrra myndbandstækja. En það er svo gott annars að ég tími ekki að farga því. Viðgerðarmaðurinn minn segir að svona gæðatæki séu ekki framleidd lengur.
En þú þarft greinilega að fara að íhuga tölvukaup, Sæmi minn. Sjálfri væri mér nokk sama þótt flest tæki á heimilinu gæfu upp öndina, bara ekki tölvurnar mínar.
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.11.2007 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.