183. - Frábær fyrirsögn

Ég fæ yfirleitt ekki mikið af kommentum við þessi bloggskrif mín.

Samt hefur nokkrum sinnum verið kvartað þar yfir fyrirsagnaleysi. Ég er því að hugsa um að semja við sjálfan mig um að ég megi setja fyrirsagnir á bloggin mín þegar mér sýnist, ef ég held bara áfram mínum að birta réttar raðtölur líka. Bráðum er komið ár síðan ég byrjaði á þessu. Í byrjun var þetta dálítið stopult hjá mér, en að undanförnu hef ég skrifað daglega og í seinni tíð líka birt heilmikið af gömlum fjöskyldumyndum.

Ég blogga samt aldrei oft á dag eins og sumir. Ég nenni því ekki og má eiginlega ekki vera að því. Í staðinn reyni ég að skrifa ekki óhóflegar langlokur og sem oftast að skrifa um fleiri hluti en einn í sama blogginu.

Bloggið mitt er ekkert tiltakanlega vinsælt og það er í góðu lagi. Breytingar á útliti þess hafa verið afar hægar enda er ég mjög íhaldssamur. Nýlega breytti þó ég upplýsingum um bloggvini mína þannig að nöfn þeirra koma fram en ekki login-nafn eins og áður var og er sennilega sjálfgefið því þannig er það víða. Annað sem ég breytti  nýlega er að heimsóknartölur sjást ekki lengur nema hjá innskráðum. Þetta skiptir litlu máli, því þeir sem hingað koma eru varla að spekúlera mikið í fjölda heimsókna.

Hinn sjálfskipaði yfirbloggari landsins, Stefán Pálsson tilkynnti um daginn að Moggabloggið væri dautt og hætti þar með sínum daglegu bölbænum um fyrirbrigðið. Ég sé aftur á móti ekki betur en vinsældir þess séu enn að aukast, hvernig sem á því stendur. Auðvitað þykjast sumir bloggarar vera öðrum fremri og hvort sem er á Moggablogginu eða annars staðar eru bæði góðir bloggarar og vondir, en þó einkum mismunandi. Það er einmitt fjölbreytnin sem gerir bloggið svona skemmtilegt. Það er hægt að láta allt flakka, svo framarlega sem maður treystir sér til að standa við það.

Eitt af því sem ég hef til marks um auknar vinsældir Moggabloggsins er að það er erfiðara að komast á vinsældalistann (400 vinsælustu bloggin) en áður. Ég komst á hann fyrir nokkru en virðist vera dottinn út af honum aftur. Svo eru líka alltaf að bætast við nýir bloggarar eins og sjá má ef litið er á þá hlið. Ekki veit ég samt hvað Moggabloggarar eru margir.

Þegar ég var áðan að kíkja á nýjustu bloggin þá vakti eitt nafn athygli mína. Feministafrettir.blog.is og auðvitað kíkti ég á það. Þar er Youtube vídeó af lesnum fréttum og þó varahreyfingar stemmi ekki alveg við hljóðið var þetta að mörgu leyti ágætlega gert. Af hverju það stendur að þetta sé formúlublogg í haus þess fæ ég samt ekki skilið, því þar er augljóslega um að ræða lógó frá karlrembuíþróttinni formúlu eitt.

Engar myndir í dag, því ég er ekki með þær við hendina. Fleiri myndir eru þó væntanlegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband