178. blogg

Þegar kirkjukórar, eða fólk úr þeim, æfði sig fyrrum var það oft á hinum ólíklegustu stöðum. Fjósum, fjárhúsum, hlöðum eða hvar sem var. Þá þótti óviðeigandi að nota texta sálmanna sjálfra og því oft samdir aðrir textar sem pössuðu við sálmalögin sem verið var að æfa.

Þessir textar voru kallaðir „druslur" en voru samt oft ágætur og sniðugur samsetningur.

Þegar ég var á Bifröst var yfirleitt sungið í rútunni ef við fórum eitthvað. Vinsælastur var sennilega textinn sem er svona: Rúgbrauð með rjóma á, mér þykir gott að fá, o.s.frv. o.s. frv., sem flestir kannast eflaust við. Líka var oft sungin drusla ein sem byrjaði eins og hér segir. Lagið var eitthvert sálmalag sem ég kann ekki að nefna.

Framandi kom ég fyrst að Grund

fallegur er sá staður

Því miður man ég þennan texta ekki allan, en man þó að rímorðið við staður var berrassaður.

Einkum var það bekkjarbróðir minn Baldur Óskarsson sem stóð fyrir þessum söng, enda var hann margfróður og ætíð hrókur alls fagnaðar.

Ein besta sjálfsævisaga sem ég hef lesið er er „Í verum" eftir Theodór Friðriksson. Það er reyndar nokkuð langt síðan ég las hana en ég man bara að mér þótti hún verulega góð. Sú útgáfa sem ég las var í tveimur bindum. Theodór lýsir vel lífinu á Íslandi á fyrri hluta þessarar aldar og basli sínu við að ná tökum á tilverunni. Einkum segir hann þó frá lífinu á Norðurlandi og ferðum sínum um Fjörðurnar og Tröllaskaga. Hann átti víða heima, kannski lengst á Sauðárkróki, en líka á Grenivík og fór víða um land til vinnu. Meðal annars til Vestmannaeyja og á hákarlaveiðar. Alltaf stundaði hann einhverjar skáldskapartilraunir, en ég held að það sé einkum ævisagan sem heldur nafni hans á lofti. Eflaust voru þó fleiri bækur eftir hann gefnar út. Síðustu ár sín bjó hann einsamall hér í Reykjavík og dó einhverntíma á fimmta áratug síðustu aldar.

Það er dálítill kross að vera búinn að ákveða að blogga eitthvað á hverjum degi eins og ég er búinn að gera. Stundum reynist tíminn ekki mikill til að setja eitthvað saman . Ég held bara að ég nenni ekki að blogga meira núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Fagnandi kom ég fyrst að Grund
fallegur var sá staður...... (minnir mig og síðan)

(Kristófer minn með káta lund)?
þar kom út berrassaður.

Hallmundur Kristinsson, 19.11.2007 kl. 22:38

2 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Gúglandi þennan texta rakst ég á þetta erindi svohljóðandi: 

Framandi kom ég fyrst að Grund,
fallegur var sá staður.
Þórarinn bar mjög þýða lund,
það var blessaður maður.
Hann gaf mér hveitibrauð,
hangikjöt líka af sauð,
setti á sessu ver,
svona lét hann að mér.
Líkaminn gjörðist glaður.

Það var í frásögn einhverrar sem hafði verið í hjásetu að Kúskerpi í Skagafirði en ég átta mig ekki á hver er. Þessi drusla hefur örugglega þvælst manna á millum í mörgum útgáfum. Ég er næsta viss um að ég heyrði þetta alltaf sungið Fagnandi
kom ég......

Hallmundur Kristinsson, 19.11.2007 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband