11.11.2007 | 01:25
170. blogg
Í dag, laugardag, fór fram næstsíðasta umferðin á meistaramóti Bahama í skák.
Bjarni er þar í efsta sæti, sigraði í dag og hefur möguleika á því að verða skákmeistari Bahamaeyja. Til að tryggja sér það má hann ekki tapa í síðustu umferðinni. Annars er Bjarni búinn að blogga sjálfur um mótið og ég vísa bara á það.
Skúrar af ýmsu tagi eru og voru karlmönnum mjög kærir. Eitthvað á þessa leið skrifaði ég á bloggið mitt um daginn. Útaf þessu má leggja á ýmsa vegu. Líklega kúga konur oft karlmenn þó þeir séu yfirleitt ofbeldisfyllri en þær. Kúgunin kemur einkum fram í því að þær vilja ráða öllu innanhúss. Svoleiðis hefur það alltaf verið og því má helst ekki breyta. Karlmennirnir vilja gjarnan sanka að sér allskyns rusli og fangaráð þeirra verður oft að byggja einhvers konar skúr og koma uppáhalds draslinu sínu þar fyrir.
Eitt sinn heyrði ég um mann fyrir norðan sem safnaði húfum. Einkum derhúfum með vörumerkjum. Á endanum var safnið orðið svo stórt að hann byggði sér lítinn sumarbústað við hliðina á íbúðarhúsinu og kom húfunum fyrir þar. Ég held að hann hefði ekki lent í þessum vandræðum ef hann hefði safnað frímerkjum. Þá hefði hann getað reist sumarbústaðinn einhvers staðar uppi í sveit og eignast um leið ánægðari eiginkonu. Ég get ekki ímyndað mér að hún hafi verið hrifin af húfunum.
Undarlegt er það hve margir skoða þessa bloggsíðu mína. Þeim fjölgar nokkuð jafnt og þétt þessa dagana. Kannski það séu myndirnar. Það er nokkuð kúl að setja alltaf einhverjar gamlar myndir með hverri færslu. Auðvitað get ég það ekki endalaus, en er á meðan er.
Ellilífeyrisþegum svokölluðum mun fjölga mikið á næstu árum. Ekki bara vegna þess að ég kemst í þann flokk heldur fara eftirstríðsárakynslóðirnar (hræðilega langt orð) að láta að sér kveða á þeim vettvangi. Gamalmennablogg eins og vel mætti kalla þetta verða þá jafnvel meira áberandi en nú er.
Hvað á þetta fólk allt saman að gera annað en að hanga í tölvunum sínum þegar búið er að koma í veg fyrir að það geti unnið með því að taka allar tekjur þess í skatta, skyldur og alls kyns eftirkröfur? Jú, til tilbreytingar gæti það náttúrlega hlustað á útvarp Sögu eða farið á bókasafnið. Þó illa hafi verið farið með gamalt fólk ekki síður en börn og unglinga á árum áður hefur það þó getað haldið áfram að gera eitthvað meðan getan leyfði. Nú má enginn gera neitt nema hafa háskólapróf uppá að vera sérfræðingur í greininni.
Það sem hefur komið mér einna mest á óvart í sambandi við þessi bloggskrif er hversu auðvelt er að finna sér eitthvað til að skrifa um. Ég hef reynt að halda lengd pistlanna í lágmarki, en oftast nær er ég að velta á undan mér mörgum hugmyndum um bloggefni og geri ekki alvöru úr að nota nema lítinn hluta þeirra.
Hér er vísa sem er úr rímu eða einhverju þess háttar. Skemmtileg vísa.
Greiddi upp trýnið gluggasvín,
greitt að hnefabragði.
Sverðarunn tók sér í munn
og saman aftur lagði.
Gluggasvín merkir hús og sverðarunni er maður. Hér er semsagt verið að lýsa þeirri einföldu athöfn að maður nokkur ber að dyrum, þær opnast strax, maðurinn gengur inn og hurðin lokast á eftir honum. Takið líka eftir hinu skemmtilega innrími í fyrstu ljóðlínu og þeirri þriðju.
Og þá eru það myndirnar.
Hér er Björgvin í sínum fínu matrósafötum og horfir í áttina að skúrnum. Ekki veit ég hvers vegna. Lengst í fjarska sést í Árnýjarhús sem ber næstum við Ingólfsfjall.
Á þessari mynd hefur Sigrún leyft Vigni að setjast á hjólið sitt og styður við hann. Greinilega er það gamla húsið á Bláfelli sem er í baksýn. Takið líka eftir símastaurnum í horninu til vinstri. Svona lagað sést ekki núorðið og svei mér ef hér er ekki enn eitt dæmið um prjónaða peysu af betri sortinni.
Athugasemdir
Ég er ekkert mjög hissa á vinsældum bloggs þíns. Þú kemur svo víða við og hefur eðlilegan og hispurslausan frásagnarmáta. Svo skemma myndirnar nú trúlega ekki fyrir. Ég hins vegar er löngu dottinn út af vinsældarlista Moggabloggs, en er oft nokkuð ofarlega á Vísi.
Hallmundur Kristinsson, 11.11.2007 kl. 19:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.