164. blogg

Ég býst við að ég mundi lesa mannamálspistla Sverris Páls á Akureyri oftar ef þessar aðfinnslur hans sumar hverjar væru ekki svo gamlar tuggur að þær eru orðnar leiðinlegar. Kannski er ég orðinn ónæmur fyrir heimskulegum málfarsvillum því þær vaða svo uppi að maður er eiginlega hættur að taka eftir þeim. Svo skilur maður oftast hvað átt er við þrátt fyrir villurnar, eða þykist að minnsta kosti gera það.

Sverrir Páll er furðu naskur að finna villur í fjölmiðlum og heldur sig að mér sýnist einkum við þá prentuðu. Það væri að æra óstöðugan að ætla sér að ragast í ambögum sem sjást á Netinu. Eðlilegt er að gera harðari kröfur til útbreiddustu fjölmiðlanna. Sjálfum finnst mér langleiðinlegast að sjá málvillur í auglýsingum sem víða fara.

En verður þetta allt ekki til þess að lélegt málfar þyki sjálfsagt og eðlilegt. Hugsanlegt er það. Ég er samt alltaf dálítið hallur undir þá skoðun að rangt mál geti orðið rétt með tímanum. Þágufallssýkin er t.d. orðin svo útbreidd að mér sýnist næsta tilgangslaust að vera að amast við henni. Hver eru svo rökin fyrir því að ekki megi segja mér langar? Er það nóg að einhverjir umvandarar séu sífellt að segja að það megi ekki. Ekki finnst mér það.

Eru bloggarar aðallega að skrifa fyrir sjálfa sig og aðra bloggara. Þessu hef ég séð haldið fram en held að sé ekki rétt. Það eru áreiðanlega talsvert margir sem lesa blogg. Hugsanlega fjölmargir og sumir þeirra vilja helst ekki viðurkenna það. Tölur þær sem birtast á Moggablogginu benda til þess að bloggið sé ótrúlega vinsælt. Samt hefur það á sér heldur slæmt orð. Vissulega eru vinsældir þess nýtilkommar. Þetta er líka alveg ný samskiptaaðferð.  Mér dettur þetta sem hér er sagt í hug svona í framhaldi af málfarsumræðunni hér á undan.

Málfarið hjá sumum bloggurum er alveg hrikalegt. Þó finnst mér það ekki gera svo mikið til. Oft á tíðum eru þeir ekki að skrifa fyrir marga. Er ekki alveg eins líklegt að málfar á sendibréfum, nú eða tölvubréfum sé slæmt líka. Hverjir skaðast svosem á því? Voru sendibréf alltaf svo miklu frábærari hér áður fyrr? Kannski eru það bara þau bestu sem hafa varðveist. Hin hafa gleymst og skaða engan.

Horfði í kvöld á viðtalsþátt Evu Maríu við Guðlaugu Þorsteinsdóttur. Ég man vel eftir þeim tíma þegar sem mest bar á henni í skákinni. Síðan hvarf hún einginlega úr mínum huga en kom aftur til baka þangað fyrir nokkrum árum síðan þegar hún fór aftur að tefla og hafði engu gleymt. Hún er svona fjórum eða fimm árum eldri en Bjarni og þau hafa oft teflt hvort við annað held ég.

Mér fannst þessi þáttur að mörgu leyti góður. Einkum fannst mér Guðlaug koma vel fyrir. Skákmaðurinn sem hún hitti á Geðdeild Landsspítalans gæti hafa verið Haukur Angantýsson, mig minnir að ég hafi einhvern tíma heyrt að hann hafi átt við geðsjúkdóm að stríða. Ég man vel eftir Hauki. Hann var einhver eftirminnilegasti skákmaður sem ég hef séð og hef ég séð þá nokkra.

Ég er samt ekki þeirrar skoðunar að geðveiki sé algengari hjá skákmönnum en öðrum. Hinsvegar eru fordómarnir gagnvart geðsjúkdómum ótrúlega miklir ennþá í þjóðfélaginu. Skemmtilegasta kommentið frá Guðlaugu var um kennarann sem sagði henni að Friðrik Ólafsson hefði ekki heldur verið neitt sérstaklega góður í stærðfræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband