161. blogg

Mikið er rætt þessa dagana um negrastrákana tíu.

Mig langar að leggja fáein orð í þann belg. Ég man vel eftir þessari bók og hef oft heyrt vísurnar sungnar. Þegar ég leit fyrst á vísurnar sjálfar hjá Sigurði Hreiðari mundi ég enn betur eftir þeim en myndunum. Ég man að ég tók vel eftir því strax þegar ég las bókina í fyrsta sinn að höfundurinn var að leita að rímorðum við töluorðin frá einum upp í tíu og tókst það ekkert sérstaklega vel. Þó fannst mér taka steininn úr í lokin þegar hann lét tíu ríma við bíó. Myndirnar fannst mér ekkert sérstakar og hinn rasíski boðskapur bókarinnar fór alveg framhjá mér.

Semsagt þetta var eiginlega mín fyrsta lexía í bragfræði og mér er nær að halda að ég hafi aldrei borið þess bætur. Sé ennþá að leita að betri rímorðum við tölurnar einn til tíu.

Ég man líka vel eftir bókinni „Litli svarti Sambó" og að ég vorkenndi vesalings tígrisdýrinu mikið að breytast í sýróp. Mér fannst Sambó greyið vera aukaatriði í þeirri sögu. Negrastrákarnir í bókinni „Tíu litlir negrastrákar", hurfu bara úr sögunni og maður velti örlögum þeirra lítið fyrir sér. Ef aldir hafa verið upp í mér fordómar gagnvart fólki frá Afríku var það miklu fremur með bókinni „Blámenn og villidýr" sem ég las á þessum árum eða nokkru seinna. Mig minnir að í þeirri bók hafi verið sögukaflar frá Afríku og þar hafi rasískar og fordómafullar hugmyndir vaðið uppi.

Ég minntist á Kidda á Hjarðarbóli nýlega. Systir hans minnir mig að héti eða heiti Loftveig. Ég þekkti hana ekki neitt en nafnið minnti mig alltaf á nafnið Lofthæna sem ég held að hafi verið til sem kvenmannsnafn. Svo segir sagan að minnsta kosti. Hún segir líka frá nafninu Fimmsunntrína sem ég held að hafi verið til. Hún átti að hafa verið fædd á fimmta sunnudegi eftir Trinitatis (Þrenningarhátíð).

Börn hafa stundum verið skírð undarlegustu ónefnum. Mér verður oft hugsað til þess hvort foreldrarnir hafi virkilega hugsað um hag barnanna sjálfra þegar nafnið var valið.  Sveinn - Sveinsína - Sveinsíníus er velþekkt, en mér finnst ótrúlegt að fólk sé svo skyni skroppið við kynbreytingar á nöfnum eins og þarna er gefið í skyn. Að Þórey sé kvenmyndin af Eyþór finnst mér hins vegar nokkuð kúl.

Yfirleitt mátti aldrei áður fyrr skíra barn eftir öðrum nema hann væri dáinn. Mér er minnisstætt að einhvern tíma sagði einhver við mömmu að barn hefði verið skírt Arnviður Ævar. Mamma sagði strax:

„Ha, er hann Arnviður Ævar dáinn?"

Svo var held ég ekki, heldur var þarna um alveg furðulega tilviljun að ræða. Ég man einkum eftir þessu vegna þess að bæði nöfnin eru sjaldgæf og saman hljóta þau að vera enn sjaldgæfari.

Ljótur hét strákur einn í Hveragerði þegar ég var að alast þar upp. Mamma hans hét Bergljót, og ég skil ekki hversvegna strákgreyið mátti ekki heita Bergur eða eitthvað þess háttar.

Bjarni er búinn að blogga. (lampshadow.blog.is - eða - linkur hér við hliðina) Allir að lesa það. Eins og þið sjáið set ég þetta aftast í mitt blogg en ekki fremst til að það þurfi að lesa mitt fyrst. Ha ha, sneri á ykkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þú snerir a.m.k. á mig. 

BJARNI er hérna ........ Vil bara segja þér Sæmundur - ef þú ekki veist - að ef þú litar orð eða setningu, smellir síðan á tengill, þá geturðu kóperað slóðina á viðkomandi síðu ofan í orðið (eða setninguna).

Talandi um gömul nöfn, þá dettur mér í hug nafnið Freðsvunta... sem ku víst hafa verið til. 

Farin til Bjarna......

Anna Einarsdóttir, 2.11.2007 kl. 13:58

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Eitthvað skolaðist þetta til hjá mér....

Taka tvö að setja slóð á Bjarna.

Anna Einarsdóttir, 2.11.2007 kl. 13:59

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Varðandi negrana; þá nefnir þú einmitt það atriði sem ég hef velt fyrir mér undanfarið en frekar lítið farið fyrir í umræðunni, einmitt hversu lélegur kveðskapur þetta er. Því get ég bara ekki séð menningarsögulegu verðmætin í þessu. (fyrir utana allt hitt sem víða hefur verið rætt).

Kristjana Bjarnadóttir, 2.11.2007 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband