152. blogg

Benni tók nokkrar filmur með sér þegar hann kom til okkar um helgina.

Á sunnudagskvöldið sendi hann okkur svo fáeinar myndir sem hann hafði skannað. Ég sendi þær í pósti til Hafdísar og í gegnum Yahoo messengerinn til Bjarna. Þetta voru eldgamlar myndir, en ágætar samt. Nokkrar voru frá því þegar við sendum bingó út beint í Borgarnesi fyrir langalöngu (um það mætti skrifa langt mál) og nokkrar teknar af mér, Áslaugu og Ingibjörgu með kettling. Auk þess ein mynd af Áslaugu uppi í tré.

Þegar ég sendi myndirnar til Bjarna tók það svolítinn tíma og Áslaug notaði tækifærið og spjallaði við hann á messengernum á meðan. Hann gat síðan skoðað myndirnar jafnóðum og messengerinn lauk við að senda þær. Alls voru þetta 11 myndir.

BS: "Ert þetta þú sem hangir þarna í trénu?"

ÁB: "Ég hangi ekki neitt í því, ég er að klifra."

BS: "Nú, jæja. Klifra þá.

Mér fannst athyglisvert að Bjarni skyldi nota orðið að hanga. Það minnti mig á eldgamlan brandara (eflaust frá því áður en prinsessan af Wales fórst í bílslysinu í París.) Brandarinn var svona:

Lafði Diana eða hékk hún?

Ætli ég hafi ekki verið svona á fjórtánda ári þegar Bjössi bróðir fæddist. Ég man að mamma var komin vel yfir fertugt þegar hún átti hann og sumum fannst hún jafnvel vera orðin fullgömul til að eignast barn. Við krakkarnir veltum því ekki mikið fyrir okkur en fannst þetta afar spennandi.

Það var síðan nokkru eftir hádegi dag einn sem Bjössi boðaði komu sína. Mamma bað mig að fara uppeftir til Magnúsar læknis og segja honum að barnið væri að koma. Ég fór til Magnúsar til að segja honum þetta og hann spurði mig hvort vatnið væri komið. Ég vissi ekki til þess að það hefði neitt verið vatnslaust og gat ekki svarað því.

Þegar pabbi kom síðan heim í kaffi var barnið fætt. Vigni þótti þetta allt stórmerkilegt og sagði við pabba þegar hann var búinn að fá sér að drekka:

"Pabbi, pabbi, hefurðu séð það?"

Ég man að við gerðum á sínum tíma mikið grín að Vigni fyrir að hafa þurft að taka svona til orða. Hann vissi nefnilega ekki hvort þetta var strákur eða stelpa, en við Ingibjörg höfðum verið svo ótrúlega gáfuð að átta okkur á að spyrja um það.

Bloggvinkona mín Salvör Gissurardóttir getur ekki stillt sig um að gera svolítið grín að Stebba gegnherílandi á blogginu sínu. Þessi sami Stefán tilkynnti á sínu bloggi fyrir nokkru að Moggabloggið væri dautt. Mér sýnist Moggabloggið vera enn að bæta við sig, en er ekki frá því að Stefán Pálsson sé á niðurleið vinsældalega séð og þessvegna svona fúll.

Það rann upp fyrir mér um daginn að einhvern tíma hafa Tungnamenn talað um pabba og mömmu sem ungu hjónin á Drumboddsstöðum. Skrítið. Tíminn skríður áfram miskunnarlaust og mylur allt undir sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband