151. blogg

Nú er mánudagseftirmiðdagur og ég er að fara að vinna í kvöld og ætti eftir kerfinu ekki að vera í vandræðum með að finna tíma til skrifta. Sjáum til.

Ekki er það mjög margt sem mér dettur í hug akkúrat núna en kannski leggst mér eitthvað til.

Sigurður Hreiðar vill einangra umræðuna um samkynhneigða, sem grasserar um allt núna, við íslenskuna og hvort talað er um hjón eða ekki hjón. Ég er hræddur um að miklu meira hangi á spýtunni. Mér er minnisstætt hve hatrömm baráttan gegn því að tala um kynvillu var á sínum tíma. Hugmyndaheimur fólks stjórnast mikið af tungumálinu. Áhrif tungumálsins á lagasetningu eru vanmetin.

Ég er hræddur um að samkynhneigðir verði ekki ánægðir með að það megi gefa þá saman í kirkjum og allt en bara ekki kalla þá hjón. Kirkjan skiptir líka máli í þessu öllu saman. Hvað starfsmenn hennar og þeir sem reglulega sækja messu vilja, skiptir miklu máli. Eðlilegast er að kirkjuþing ráði þessu. Nú hótar biskupinn því að kirkjunnar menn hætti bara að gefa fólk saman í hjónaband ef ætlast verður til slíks af þeim varðandi samkynhneigð pör.

Allt er þetta mál með talsverðum ólíkindum. Mannréttindi blandast í þetta ásamt trúarskoðunum og umræðan virðist ætla að verða enn illvígari en þegar ráðist var á kynvilluna. Þetta snertir mun meira trúarskoðanir fólks en önnur lífsgildi og ætti að vera vatn á myllu þeirra sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju.

Hér fer á eftir brandari sem mér þótti einu sinni meinfyndinn. Þetta gerist í Danmörku. Kona ein er allsnakin í sólbaði og hefur hundinn sinn hjá sér. Hundurinn heitir Saadan noget og stingur allt í einu af og hverfur. Konan flýtir sér að fara að leita hans og grípur það sem hún heldur vera spegil og bregður fyrir versta stað. Hún hittir fljótlega nágranna sinn og segir:

„Har De set saadan noget?"

„Ja, men ikke í ramme för," segir nágranninn og getur ekki stillt sig um að stara á konuna.

Afar einkennilegt mál er komið upp varðandi knattspyrnumann ársins meðal kvenna. Þjálfari Vals virðist hafa komið þessu af stað með því að ljá máls á því að ræða þetta við íþróttafréttamenn. Hefði hún ekki gert það væri þetta sennilega ennþá bara kjaftasaga. Þjálfarinn á því að víkja og hefði verið nær að þegja. Ef fólk sem á kosningarétt í svona kosningu má ekki ræða saman verður að gera því það ljóst og framfylgja því. Ég er ansi hræddur um að eitthvað sem hugsanlega mætti kalla samantekin ráð hafi komið fyrir áður við svipaðar kringumstæður.

Sagt er að milljarður króna eða svo sparist við það að skipta um kúakyn. Ég er samt ekki viss um að það borgi sig þegar á allt er litið. Milljarður er ekki mikið. Menn eru miklu vanari hærri tölum. Hvað yrði um hið íslenska kúakyn ef skipt væri. Hér vil ég að íhaldssemin ráði. Auk þess sem íslenska kýrin er bara talsvert myndarleg, a.m.k. beljuleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Sammála þér með íslenska kúakynið.... að halda í það sem við höfum og breyta engu.  Íslensk mjólk úr íslenskri kú sem baular á íslensku..... það er mín skoðun í hnotskurn.

Anna Einarsdóttir, 23.10.2007 kl. 20:18

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég má til með að gera athugasemd, ágæti bloggvinur, og mælast til að þú lesir betur bloggið mitt. Ég vil ekki einangra umræðuna um samkynhneigða við íslenskt mál en það er vissulega innlegg í umræðuna að málskilningi sé ekki umturnað til að þóknast einhverjum minnihlutahóp.

Mér er einkum tvennt í huga: að þeir sem vilja vera öðru vísi fái að vera það í friði og láti þá líka aðra í friði en séu ekki að nugga sínum öðruvísiheitum utan í þá seint og snemma -- og að maður megi hafa skoðun á málefnum minnihlutahópa án þess að það sé kallað fordómar og rangsleitni.

Með kveðju í Hveragerði

Sigurður Hreiðar, 23.10.2007 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband