147. blogg

Horfði í gærkvöldi á bókaþáttinn hjá Agli Helgasyni og heldur þykir mér hann vera farinn að þynnast.

Ég hef aldrei verið sérlega snokinn fyrir Matthíasi Johannessen og ekki fannst mér hann bæta við sig í þessum þætti. Svo vantaði Pál Baldvin Baldvinsson líka í þáttinn.

Í undanförnum þáttum hefur verið fjallað um fólk sem ég kannaðist dálítið við. Jónas Svavár minnir mig að ég hafi skrifað eitthvað um hér á blogginu fyrir allnokkru. Gott ef ég skrifaði ekki upp eftir minni sama kvæðið eftir hann og farið var með í þættinum.

Torfhildi Hólm las ég talsvert á sínum tíma. Einkum er mér minnisstæð saga hennar um Brynjólf biskup. Einhvern tíma tók ég þátt í sagnfræðilegri spurningakeppni og þar máttu þátttakendur velja sér aldir úr Íslandssögunni. Þá var ég nýbúinn að lesa sögu Torfhildar um Brynjólf og vissi auðvitað að Hallgrímur Pétursson og fleiri andans menn voru samtíðarmenn hans og voru uppi á 17. öldinni. Ég valdi hana því og kom sjálfum mér á óvart með því að standa mig ótrúlega vel í keppninni. Kannski veit ég meira um 17. öldina en margar aðrar í Íslandssögunni. 

Einhvern tíma keypti ég af rælni tímarit sem nefnt var „Óregla". Mig minnir fastlega að ritstjóri og ábyrgðarmaður þess hafi verið Steinar Sigurjónsson. Að minnsta kosti voru þarna greinar eftir hann og ef ég man rétt kafli úr óútkominni bók hans „Blandað í svartan dauðann".

Það var séra Rögnvaldur á Staðastað sem hélt upp á afmælið sitt einhvern tíma á þeim árum sem ég var á Vegamótum og bauð meðal annars upp á brennivín sem drekka átti úr skel. Það var gert til að gestirnir gætu með sanni sagt að þeir hafi þurft að lepja dauðann úr skel í veislunni.

Kannski var það mest vegna þess að ekki var fjallað lengur um höfunda og skáld sem ég veit deili á sem mér fannst þátturinn hjá Agli Helgasyni í þynnra lagi í gærkvöldi. Þó var minnst á Ingimund fiðlu sem er enn einn snillingurinn sem ég man eftir að hafa heyrt getið. Ég held reyndar að hann hafi verið tónlistarsnillingur, en það svið er mér meira og minna lokuð bók, því miður.

Mig minnir að það hafi verið Gíslína í Dal sem sagði frá því á blogginu sínu að hún hefði keypt eða fengið bókina um Thorsarana nýlega og það minnir mig á dálítið úr þeirri bók sem ég las einmitt fyrir þónokkrum mánuðum. Þar segir frá því þegar Thor Jensen lét byggja fyrir sig Fríkirkjuveg 11. Þetta var eitt af fyrstu húsunum í Reykjavík þar sem rafmagnsljós voru í hverju horni. Húsið var byggt fyrir um það bil hundrað árum. Sumir hneyksluðust á því að rafmagnsljós væri meira að segja á klósettunum.

Ég kom á skrifstofur Straums-Burðaráss í Borgartúninu um líkt leyti og ég las bókina um Thorsarana og þar kvikna ljós allsstaðar af sjálfu sér þegar komið er inn í herbergin. Það eru semsagt einhverjir skynjarar sem kveikja ljósið fyrir mann. Svona er þetta meira að segja á klósettunum. Eru þetta í hnotskurn þær framfarir sem orðið hafa á hundrað árum? Ég bara spyr. Kannski eru þessi skynjaraljós fyrir löngu orðin algeng og bara ég sem fylgist svona illa með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson



Gunnar Helgi Eysteinsson, 19.10.2007 kl. 10:04

2 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Rögnvaldur á Staðarstað var litríkur karakter. Held að ljósskynjarnar séu fyrir nokkru orðnir ansi algengir a.m.k. í verslunar-,skrifstofu- og veitingahúsarekstri.

Gíslína Erlendsdóttir, 20.10.2007 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband