17.10.2007 | 01:58
145. blogg
Nýi þátturinn hjá Simma lítur bara sæmilega út. Sviðsmyndin er þó afskaplega fáránleg, stór borð, gríðarháir gluggar og viðmælendur gjarnan látnir standa eins og þvörur, en þarna var margt þokkalega sagt og ekki seinna vænna að fá einhverja pínulitla samkeppni við Egil Helgason sem er satt að segja að verða dálítið þreytandi með allt sitt handapat og málæði.
Það er greinilegt að nú eftir að Egill er farinn ætla 365 miðlar og Stöð 2 að reyna að gera eitthvað af viti á þessu sviði. Bara að þeir gefist ekki upp undireins og eitthvað bjátar á eins og er að verða einkenni á stöðinni.
Það er oft talað um að eigendur fjölmiðla hafi áhrif á þá. Ég held að of mikið sé úr því gert. Hinsvegar er greinilegt að umræður um stór mál taka oft ákveðna stefnu eftir því hvernig fjölmiðlarnir sem heild taka á þeim. Kannski eru þetta áhrif frá umhverfinu (þjóðinni) og ekkert við þessu að segja. Kannski er þetta líka ákveðinn kúltúr sem hefur þróast upp hjá miðlunum þar sem hver apar eftir öðrum. Ekki er að sjá að um neina meðvitaða stefnu fjölmiðlafólks sé að ræða, heldur er þetta einskonar samnefnari af öllu sem sagt er. Og nú er umræðan á Netinu, einkum blogginu farin að skipta máli líka.
Margir bloggarar setja á bloggið sitt smásögur og ýmislegt fleira sem þeir hafa áður skrifað í þeirri von að einhverjir lesi og kommenti jafnvel á það. Þetta getur verið ágætt en er um leið svolítið hættulegt að mínu mati.
Bloggskrif lúta allt öðrum lögmálum en alvarlegri skrif. Þau eru eiginlega bara fyrir stundina og staðinn. A.m.k. er það þannig með mig að um leið og ég hef sett eitthvað á bloggið mitt hef ég litlar áhyggjur af því eftir það. Allra síst dytti mér í hug að fara að leiðrétta það eða breyta því. Athugasemdum og fyrirspurnum mundi ég þó að sjálfsögðu svara, einkum ef þær snerust um það að ég hefði farið rangt með, en afar hæpið finnst mér að breyta bloggfærslum eftir á. Ég undanskil þó smávægilegar prentvilluleiðréttingar og ef til vill lagfæringar á orðalagi og þess háttar. Mér dytti hinsvegar aldrei í hug að fara að fella niður er gjörbreyta einhverju sem ég hefði áður sett á bloggið.
Eitt af því sem kemur út úr stóra orkuveitumálinu er að framvegis eiga sjálfstæðismenn mun erfiðara með að klína glundroðakenningunni á aðra. Eins og nú horfir mun flestum finnast stjórn með átta flokkum hér í Reykjavík líklegri til að starfa vel saman en vera mundi ef Sjálfgræðisflokkurinn stjórnaði borginni einn og sjálfur. Sú kenning að áhrifin af þessu á landsstjórnina geti styrkt Samfylkinguna er líka nokkuð athyglisverð.
Einhverntíma var ég á gangi rétt hjá Kaupfélaginu í Hveragerði. Það hefur verið áður en Breiðamörkin var steypt (og sennilega löngu fyrr) því veghefill var að hefla götuna þar fyrir framan. Ég sá að allstór steinn var á götunni og veghefillinn stefndi beint á hann. Þegar hefillinn kom að steininum lenti hann undir brún fremra afturhjólsins og skaust í áttina að Kaupfélaginu. Þangað sveif hann í fallegum boga og lenti beint í rúðunni á einum sýningarglugganum í kramvörubúðinni, rúðan brotnaði en steinninn stóð fastur í gatinu.
Þessi rúða þætti ekki ýkja stór nútildags en þótti geysistór á þessum tíma. Ég man að eitthvert havarí varð útaf þessu en mér kom þetta auðvitað ekkert við. Ég var bara innocent bystander" eins og þar stendur.
Ástæðan fyrir því að mér er þetta svona minnisstætt er að það er ekki algengt að sjá svona lagað. Ég held að ég hafi verið sá eini sem sá þennan atburð gerast. Veghefilsstjórinn þrætti þó ekkert fyrir að steinninn gæti hafa skotist undan heflinum. Auk þess var sérkennilegt að sjá að steinninn stóð fastur í gatinu sem hann braut á rúðuna og líklega sýnir það að krafturinn á steininum rétt dugði til að brjóta rúðuna.
Áslaug átti afmæli í dag og í kvöld fórum við og fengum okkur að borða á veitingahúsi af því tilefni. Einnig skrifaði Áslaug sig fyrir styrk til stráks í Pakistan hjá ABC barnahjálp. Það er að ég held hugsað sem afmælisgjöf frá henni til hans og vice versa. Strákurinn sem ég man ómögulega hvað heitir fæddist 16. október 1993 og á því sama afmælisdag og hún. (og Guðbergur Bergsson)
Athugasemdir
Eina skiptin sem ég breyti bloggfærslu minni er þegar blogg gestur leiðréttir mig. Ég skrifa þá í skýrum stöfum að ég hafi breytt eftir ábendingu.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 17.10.2007 kl. 11:14
Ég hef tekið upp á því að flokka færslur. Það auðveldar þeim sem kíkja sjaldan en hafa kannski bara áhuga á ákveðinni tekund (t.d. gömlum sögum sem ég hef verið að skrifa). Stundum gleymi ég að merkja við flokk þegar ég birti færsluna. Þó ég breyti engu öðru þá kemur merki um að ég hafi breytt færslunni. Mér finnst þetta galli því ég vil ekki að það líti út fyrir að ég stundi eftirá ritskoðun.
Kristjana Bjarnadóttir, 17.10.2007 kl. 20:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.