143. blogg

 Um daginn var ég eitthvað að fjölyrða um bæjanafnagátur sem ég hefði búið til sjálfur og birti nokkrar þeirra hér á blogginu mínu. Ein slík kom mér svo í hug nokkrum dögum seinna svo ég birti hana þá. Þetta var nafnið Bognibrestur.

Ég man ekki hvort ég var búinn að segja frá ráðningunni á þessari þraut. En Bognibrestur er að sjálfsögðu Svignaskarð.

Fyrir þá sem gaman hafa af bæjarnafnagátum þá eru hér nokkrar: (Ekki eftir mig þó.)

Með þeim fyrsta fast er slegið.

Fæst af öðrum lamabaheyið.

Að hinum þriðja glögg er gata.

Gleður hinn fjórði þreytta og lata.

Í fimmta ei dropi nokkur næst.

Næðir um sjötta, er gnæfir hæst.

Er hinn sjöundi út við sjá.

Áttundi nefnist Dimmagjá.

Er hinn níundi efni í vönd.

Ekki er tíundi nærri strönd

Ellefti nefnist Hlýjusléttur.

Á hæð er tólfti bærinn settur.

Á þrettánda er naumast sól að sjá.

Sjómenn í fjórtánda næði fá.

Fimmtándi er prýði framan á bergi.

Finnst hinum sextánda betri hvergi.

Sautjándi er aftan við alla kálfa.

Á átjánda mun ei húsið skjálfa.

Nítjándi í eldhúsi er tilvalið tæki.

Í tuttugasta ég ylinn sæki.

Og ráðningarnar eru á þessa leið:

Hamar, Engi, Tröð, Hægindi, Vatnsleysa, Vindás, Höfn, Svartagil, Hrísar, Heiði, Laugavellir, Ás, Forsæludalur, Höfn, Foss, Sælustaður, Hali, Bjarg, Ausa, Laug.

Þegar ég var krakki í Hveragerði man ég að ég fór snemma að nýta mér afburða (hehe) málfræðikunnáttu mína. Þegar mig langaði að fá mér eitthvað sagði ég gjarnan við mömmu:

"Mamma, má ég fá mola?"

Þessu var náttúrlega varla hægt svara nema með "já" eða "nei" og ef svarið var já eins og það var auðvitað oftast þá naut ég yfirburða íslenskuþekkingar minnar með því að þetta gat að sjálfsögðu þýtt hvort heldur sem var einn mola eða marga. Því miður var ekki hægt að nota þetta trix nema á sykurmola og þó þeir væru svosem ágætir þá var takmarkað hvað hægt var að éta af þeim án þess að upp um mann kæmist.

Ég er dottinn svo hressilega í blogg-gírinn að mér telst til að ég hafi núna bloggað á hverjum degi í meira en tuttugu daga og ekki sér fyrir endann á þessum ósköpum. Ekki nóg með það heldur eru bloggin yfirleitt í lengra lagi. Það er að segja nær tveimur word-blaðsíðum en einni.

Ótrúlega margir virðast lesa þetta blogg. Ekki veit ég hvort það er vegna frábærra hugleiðinga minna eða að þeim finnist efnið sem ég tek stundum til meðferðar vera svona athyglisvert. Athugasemdir eru fáar svo ég verð bara að giska á það. Best er kannski að blanda þessu saman.

Mér hentar ágætlega að blogga einu sinni á dag. Það er samt erfitt að sjá hvað er hæfileg lengd á bloggi. Suma daga er ég í stuði til að lesa löng blogg, en aðra daga ekki. Öðrum er eflaust líkt farið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er einn af þeim sem les... kvitt

Gunnar Helgi Eysteinsson, 15.10.2007 kl. 07:18

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Ég les líka...Kveðja

Eyþór Árnason, 15.10.2007 kl. 21:37

3 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Og svo ég auðvitað.....og mamma og pabbi líka....þau blogga þó ekki sjálf.

Gíslína Erlendsdóttir, 15.10.2007 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband