136. blogg

Nú hljóta þeir Möllerinn og Marshallinn að gleðjast.

Komið nýtt og safaríkt hneykslismál sem allir þurfa að tjá sig um. Enginn hefur lengur áhuga á jafn smáskítlegu máli og Grímseyjarferjumálinu. Verðmiðinn á nýja málinu er líka 10 milljarðar, sem er mun hærra en var á ferjumálinu. Fjölmiðlarnir standa málþola og bíða eftir blaðamannafundum. Það er varla nokkurt mál svo ómerkilegt núorðið að ekki sé boðað til blaðamannafundar um það.

Horfði á hluta af þætti Evu Maríu í gærkvöldi þar sem hún talaði við Bjarna Ármannsson og auðvitað komst hann sæmilega frá þessu. Mér finnst samt að Ríkisútvarpið eigi ekki að vera að skipta sér af heitum málum með þessum hætti. Og lítið fannst mér leggjast fyrir Evu Maríu í þættinum. Hún þurfti meira að segja að hjálpa Bjarna við að koma orðum að hlutunum. Hann ætti nú að geta það sjálfur. Sannkallað drottningarviðtal.

Rafmagnsstóll kom hingað á heimilið fyrir nokkrum dögum. Hann er talsvert notaður og nýtur virðingar. Gestir fá sér gjarnan smá-salíbunu og líkar bara nokkuð vel. Óa þó og æja dálítið, en líkar samt ágætlega og fara gjarnan aftur og aftur í þetta pyndingatól. Margir kalla þetta nuddstól og það er eiginlega miklu meira réttnefni en hitt. Rafmangsstóll vekur rangar hugsanir þó réttnefni sé.

Ekki er komin mikil reynsla á þetta húsgagn, en auk alls annars getur hann hæglega þjónað sem sjónvarpsstóll. Ég er mest impóneraður yfir því hve fjölbreytt nuddið er. Hann getur bæði nuddað á ýmsum stöðum, allt frá hálsi til fóta og þar að auki nuddað með ýmsu móti, bæði hratt og hægt. Merkilegur gripur og auðvitað ekki ókeypis frekar en annað.

Þegar eitthvert þorskastríðið stóð yfir og Íslendingar kepptust við að klippa aftan úr breskum togurum stóðu samt einhverjar samningaviðræður fyrir dyrum. Spaugstofa þeirra tíma gerði grín að þessu þar sem Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra og Hannes frá Undirfelli (að mig minnir) sátu á skrifstofu ráðherrans og fengu símtal frá forsætisráðherra Bretlands. Eftir kurteisishjal í smátíma segir sá breski:

„Will you cut?"

Ólafur: „Ha, hvað segirðu?

Breski ráðherrann: (svolítið óþolinmóður) „Will you cut?"

Ólafur: „Nei, það held ég ekki. (snýr sér að Hannesi) Vilt þú kött?"

Einkennilegt hve margir sem ekki blogga hallmæla þeirri tómstundaiðju og segjast líta niður á hana. Ekki er þó annað að sjá en margir lesi þessi ósköp. Svo er upplagt að fara í fýlu ef einhver annar notar sama nafn og maður sjálfur í blogginu sínu.

Já, bloggið nýtur engrar virðingar og kannski má kenna Moggablogginu um það. Hér áður og fyrr voru bloggarar yfirleitt hálfgerðir nördar en nú er allskonar fólk farið að blogga. Samfélag bloggara sem myndast hefur hér á Moggablogginu er á margan hátt merkilegt. Meðan flestir aðrir bloggarar og svo auðvitað menningarelítan í heild sinni hallmæla þessu fyrirbrigði og vilja það feigt, blogga Moggabloggarar af hjartans lyst. Auðvitað er það slæmt að þeir sem þessu stjórna skuli vinna hjá Morgunblaðinu en við því er ekkert að gera. Einhver verður að eiga þetta, því það kostaði eflaust talsverða fyrirhöfn að koma þessu á laggirnar og mikilvægt er að hafa þetta ókeypis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Mér finnst gott að skreppa í bloggheima stund og stund. Gaman að skreppa rúnt í bloggvinahópnum. Kemur þetta bara ekki í staðinn fyrir heimsóknir, sem eru að leggjast af í nútímanum? ( En það kemur auðvitað ekkert í staðinn fyrir góða heimsókn!)

Eyþór Árnason, 8.10.2007 kl. 21:01

2 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Frábært grín og gaman að fá svona upprifjanir úr æsku sem ég því miður man ekki sjálf eftir lengur, kannski langtímaminnið lagist með aldrinum á kostnað skammtímaminnisins.

Gíslína Erlendsdóttir, 8.10.2007 kl. 23:06

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ágætur pistill, Saemi, og sagan um tvítyngisskortinn minnir á ráðherrann sáluga sem á að hafa sagt I´m so sad that I could spring, eða ameríkanana sem festu bílaleigubíl sinn í snjó og hringdu í bílaleiguna til að kvarta undan þessu, en fengu þá svarið: jú´ve got tú ít it! ( eða -ýt it!).

Sigurður Hreiðar, 9.10.2007 kl. 12:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband