6.10.2007 | 19:16
134. blogg
Það bendir margt til þess að Lewis Hamilton sé nýja undrabarnið í formúlunni.
Hann hefur hafið sinn feril meðal þeirra bestu með undraverðum hætti. Snillingar eins og Alonso og Raikkonen blikna í samanburði við hann. Haldi hann áfram eins og hann hefur gert er enginn vafi að hann verður heimsmeistari í mörg ár. Formúlan þurfti á manni eins og honum að halda. Eftir að Senna lést og Schumacher hætti var formúlan eiginlega ofurhetjulaus.
Hamilton var óvenjuheppinn að fá tækifæri með toppliði strax á fyrsta ári. Aðrir meistarar hafa ekki notið slíkrar heppni. Það veldur því að hann er kominn í fremstu röð strax í upphafi ferils síns. Ekki er þó víst að það hjálpi honum neitt að öðru leyti. Á næsta ári munu allra augu beinast að Hamilton og hver smámistök, hversu smávægileg sem þau eru, verða básúnuð út. Pressan verður gríðarleg á honum, en ef hann stendst hana eru honum allir vegir færir.
Ég er sammála því sem sjá mátti hér í Moggablogginu um daginn. Mér finnst óviðeigandi að kirkjan hafi of mikil áhrif við þingsetninguna. Það þyrfti að losa um þau tök smátt og smátt. Óheppilegt væri að skera á tengslin of skyndilega, en til þess getur komið ef beðið er með þetta þarfa verk of lengi. Ef trúfrelsi er hér á Íslandi í raun þá á að skera sem allra mest á tengsl ríkis og kirkju. Þetta er þó alls ekkert einfalt mál því auðvitað hefur kirkjan komið mörgu góðu til leiðar í okkar samfélagi og þar að auki eru eignatengslin svo samtvinnuð að erfitt getur orðið úr að greiða.
Mér finnst líka að sú breyting sem orðin er á þingsalnum með því að hengja íslenska fánann á endavegginn ekki vera til bóta. Í fyrsta lagi tekur fáninn sig ekkert sérstaklega vel út þarna. Óþarft er með öllu að einhvers konar ættjarðarást sé básúnuð úr þingsal. Hingað til hafa menn komist vel af án þess. Annars er fráleitt að þetta sé eitthvert stórmál.
Mér finnst þingið fara afskaplega rólega af stað. Ekki er annað að sjá en að stjórnarandstaðan sé dálítið sundruð og viti ekki hvernig áherslur er best að leggja. Þingmeirihlutinn er líka svo rúmur að það getur hæglega gert menn of værukæra ef þeir gá ekki að sér. Ef fjölmiðlarnir og stórfyrirtækin tækju upp á því að blása eitthver mál upp þá gæti stjórnin hæglega lent í vandræðum.
Eins og nú er komið þykir mér sennilegast að Ólafur Ragnar Grímsson bjóði sig fram einu sinni enn til forsetaembættisins. Meira vafamál finnst mér hvort Ástþór Magnússon nennir að standa í þessu einu sinni enn. Alvöru frambjóðendur munu ekki koma í ljós nema Ólafur tilkynni að hann ætli ekki að bjóða sig fram.
Íslenska þjóðveldið sem svo er kallað leið undir lok einkum vegna þess að framkvæmdavald var ekkert. Framkvæmdavald fólst á þeim tíma einkum í því að framfylgja dómum. Menn höfðu á þjóðveldistímanum fundið upp ágætt kerfi til að kveða upp dóma og í rauninni var enginn ágreiningur um sanngirni þeirra dóma sem kveðnir voru upp. Þegar að því kom hinsvegar að framfylgja dómum var það algjörlega á valdi þess sem dómsorðið féll með að gera það. Ef sá sem dæmdur var þverskallaðist við að hlíta dómnum gat hann sem best komist upp með það nema andstæðingurinn tæki að sér að koma vitinu fyrir hann. Þetta leiddi til stórfelldra vandræða og á Sturlungaöld logaði landið bókstaflega í ófriði vegna þessa.
Það var því ekkert einkennilegt við það að æskja þess að Noregskonungur tæki þetta verkefni að sér og var hann fús til þess. Með þessu átti hefndarskyldan að vera fyrir bí, því ríkisvaldið tæki að sér að framfylgja dómum. Allur almenningur andaði léttar við þessi málalok því hernaðurinn hafði að sjálfsögðu bitnað harðast á honum.
Mér hafa alltaf blöskrað frásagnir úr bandarísku réttarfari þar sem því er blákalt haldið fram bæði af fjölmiðlum og öðrum að aðeins með beitingu dauðarefsinga sé hægt að tryggja fórnarlömbum og aðstandendum þeirra forsvaranlegt réttlæti. Fyrir mér er þetta hugsanavilla af verstu gerð. Skylda ríkisins er fyrst og fremst að sjá um, eftir því sem hægt er, að afbrot séu sem fæst. Ekki að tryggja þeim sem fyrir glæpum verða sómasamlega hefnd og allra síst að þeir ráði sjálfir þyngd dóma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.