131. blogg

Horfði um daginn á heimildamynd sem heitir "Does snuff exist?"

Snuff kvikmynd er mynd þar sem raunverulegt morð er sýnt á hvíta tjaldinu. Áhugaverð mynd um margt. Þessa mynd nálgaðist ég af "all you see" (alluc.org) og þar er fjallað um margar af helstu hryllingsmyndum síðustu áratuga, en ég ætla ekki að skrifa meira um það.

Fyrir nokkrum árum var dálítið um það að hryðjuverkahópar tóku vídeómyndir af því þegar þeir tóku gísla af lífi. Upptökur þessar voru síðan settar á netið og vöktu oft talsverða athygli.

Einhverju sinni setti eitthvert af tenglasöfnunum sem voru vinsæl hér á landi á þeim tíma (t.d. tilveran.is) tengil á eitt svona myndband. Svo hittist á að ég fór þangað inn áður en þessi tengill var tekinn úr sambandi vegna fjölda áskorana eða hótana um aðgerðir. Búið var að segja frá þessu myndbandi í fréttum og ég vissi að afhöfðunin sjálf fór ekki fram fyrr en í lok myndbandsins.

Til að gera langa sögu stutta þá gat ég  ekki stillt mig um að fara að horfa á myndbandið. Þegar gíslinn fór að grátbiðja um miskunn fór ég að velta því fyrir mér hvort mig langaði í raun og veru nokkuð að sjá þetta. Að lokum hætti ég að horfa og slökkti á tölvunni áður en kom að sjálfri rúsínunni í pylsuendanum.

Í gamla daga í Hveragerði voru bíósýningar venjulega svona tvisvar í viku á Hótelinu. Sigga og Eiríkur höfðu stofnað  fyrirtæki sem þau kölluðua Nýja Ferðabíóið og fóru reglulega í þorpin í kring og sýndu kvikmyndir. Auðvitað sýndu þau líka í Hveragerði og hefðu kannski sýnt oftar þar ef þau hefðu ekki alltaf verið á þessum þeytingi.

Kristmann Guðmundsson sótti bíóin talsvert á Hótelinu. Hann horfði jafnvel á barnamyndirnar líka. Efir hádegi á sunnudögum (eða var það á laugardögum) voru sýndar barnamyndir og áður en byrjað var að hleypa inn hópaðist krakkaskarinn að dyrunum. Við unglingarnir þóttumst auðvitað vera of fín til að taka þá í svona vitleysu, en ekki Kristmann Guðmundsson. Ég man vel eftir honum standandi við dyrnar í miðjum krakkaskaranum.

Þegar  ég fór fyrst að vinna man ég að ég fékk  vinnu á Elliheimilinu við að tína grjót og fékk  túkall á tímann. Á þeim tíma kostaði barnamiðinn í bíó á Hótelinu þrjár krónur og ég man eftir að hafa reiknað það út að þar sem venjuleg kvikmynd stæði í svona einn og hálfan tíma þá væru launin sem ég fékk jafnhá og það sem ég  þyrfti að borga fyrir að fá að horfa nokkurn vegin jafnlengi á bíó. Það fannst mér vera góð skipti.

Einhvern  tíma á þessum árum (líklega samt einhverjum árum seinna) sá ég sænska kvikmynd sem fjallaði um vandræðaunglinga. Í myndinni sáust berar stelpur í sundlaug og ég man eftir að þegar píkuhárin sáust á einni þeirra þá heyrðist eins konar stuna frá öllum í salnum enda var þetta með afbrigðum djarft miðað við hvenær þetta var.

Eitt af því sem snertir bíósýningar fyrri ára og fólk á jafnvel erfitt með að skilja í  dag er að á þessum tíma reyktu þeir á bíósýningum sem kærðu sig um það. Mér er minnisstætt að það pirraði mann samt svolítið þegar kveikt var í sígarettu með eldspýtu (kveikjarar voru sjaldgæfir og rándýrir á þessum árum) að við það varð bjart í salnum smástund og jafnvel svo að ekki sást vel það sem fram fór á hvíta tjaldinu.

Ég man alltaf hvað Tommi hans Bjarna Tomm lifði sig svakalega vel inn í kábojmyndirnar. Hann gat alls ekki þagað og ekki heldur setið kyrr og fæturnir á honum gengu upp og niður eins og hann vari á harðahlaupum, þegar eltingarleikurinn milli kúrekanna og indíánanna fór að æsast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Vildi bara kvitta fyrir mig, les reglulega.

Gíslína Erlendsdóttir, 4.10.2007 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband