130. blogg

Sko mig.

Ég er ánægður með það hve mikil regla hefur verið á bloggskrifunum hjá mér að undanförnu. Enginn dagur hefur fallið úr og allar eru færslurnar álíka langar. Svona á þetta að vera og svona vil ég hafa það.

Kannski skiptir minnstu máli hvernig maður skrifar og hvað maður skrifar um. Lesendur kunna ef til vill best við að fá bara sitt fóður reglulega. Nei, ég segi nú svona. Auðvitað reyni ég alltaf að skrifa um eitthvað sem mér finnst bitastætt.

Þegar ég var að alast  upp í Hveragerði í kringum 1950 var oft skemmtilegt að lifa. Garðyrkjustöðvar á hverju strái og menn virtust lifa að mestu leyti hver á öðrum. Engin var útgerðin og engin stóriðjan.

Samt voru þarna ýmsir vísar að því sem á þeim tíma hefði ef til vill kallast stóriðja, þó þeir séu flestir horfnir núna. Þangmjölsverksmiðja var rekin rétt fyrir utan  þorpið, en það var fyrir mitt minni svo ég man bara eftir húsgrunninum. Mjólkursamlagið sem eitt sinn starfaði rétt við Hótelið var orðið að Ullarverksmiðju þar sem meðal annars var framleiddur lopi. Ég man eftir  því að verkamönnunum þar hitnaði  stundum innan um vélarnar og komu þá gjarnan  út í dyr og spjölluðu við okkur krakkana.

Kaupfélagið (Kaupfélag Árnesinga) eignaðist síðar þetta stóra og mikla hús og það var einmitt á efri hæð þess sem ég hóf seinna mitt hokur með Áslaugu eftir að ég var tekinn við starfi  sem útibússtjóri hjá kaupfélaginu árið 1962 eða 3

Hörður á Kvennaskólanum var helsta fyllibyttan í þorpinu um þetta leyti. Við krakkarnir höfðum óskaplega gaman af að stríða honum því hann átti það til að hlaupa á eftir okkur með öskrum og óhljóðum, þó aldrei vissi ég til þess að hann gerði flugu mein.

Meðan ég starfaði við kaupfélagið lét SÍS sjálfur reisa eina feiknstóra ullarþvottastöð upp við Hamar. Þetta var á margan hátt eins og hver önnur stóriðja þó ekki ynni þar mikill fjöldi manna. Ég man þó að pabbi vann þar um tíma og líka Bergur í Reykjakoti. Held að þeir hafi báðir fengist við að flokka ull.

Inni í dal sem kallað var, þ.e.a.s. nálægt Reykjakoti og þar í kring voru á þessum árum boraðar allnokkrar djúpar og miklar borholur í tilraunaskyni. Mikil gufa fékkst úr sumum af þessum holum og ég man að eitthvert sinn var slík hola látin blása í Varmána með þeim afleiðingum að allur fiskur drapst þar. Menn gerðu sér ferð niður í á til að sækja sér dauðan fisk, því ætur var hann þó hann hafi verið drepinn með þessum hætti. Pabbi náði einum eða tveimur allstórum silungum sem hafðir voru í matinn.

Oft hefur verið rætt um að nýta þá gufu sem þarna er búið að beisla til einhvers. Meða annars man ég að eitt sinn var rætt um stóra sykurverksmiðju. Aldrei hefur samt orðið úr neinum framkvæmdum. Fleiri verksmiðjur hefur verið rætt um að byggja þarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband