129. blogg

Þegar ég tók við rekstri útibús Kaupfélags Borgfirðinga að Vegamótum á Snæfellsnesi vorið 1970 var miklu lengra þangað en nú er.

Fyrir það fyrsta voru engin Hvalfjarðargöng svo fara þurfti fyrir allan Hvalfjörð og það á holóttum malarvegi. Síðan var náttúrlega engin Borgarfjarðarbrú svo keyra þurfti alla leið upp að Hvítárbrú hjá Ferjukoti. Eftir að yfir hana var komið var keyrt niður í Borgarnes, en þó ekki alla leið. Vegurinn vestur lá útaf veginum fyrir ofan Borgarnes þó byggðin sé komin þangað uppfyrir núna. Það byrjaði með því að nýja Mjólkursamlagið var byggt við veginn vestur og þannig talsvert frá Borgarnesi. Nú, síðan var ekið sem leið lá framhjá Borg á Mýrum og vestureftir. Í hrauninu hjá Skjálg var vegurinn hlykkjóttur mjög en það var lagað fáum árum seinna.

Allt voru þetta malarvegir, misjafnlega góðir, stundum sæmilegir, en oftast holóttir og leiðinlegir. Í fyrsta skiptið sem ég fór þessa leið þótti mér hún óralöng, en eftir því sem ég fór hana oftar fannst mér minna til um það. Þegar maður fer að þekkja leiðina finnst manni hún styttast til muna.

Mér er minnisstætt að þegar við komum að Vegamótum í fyrsta sinn raðaði starfsfólkið þar sér upp í eldhúsinu og ég gekk á röðina og heilsaði öllum með handabandi. Eitthvað fannst mér þetta óþægilega konunglegt og ég man ekki betur en Áslaug og strákarnir hafi svo komið á eftir mér með sína spaða.

Þegar við komum uppeftir hafði öllu okkar hafurtaski verið hent þar inn á stofugólf og mikið verk var að koma öllu fyrir. Í stofunni höfðu ljósin sem þar voru verið tekin niður og löfðu bara vírar niður úr dósunum í loftinu. Ég man að ég var óratíma að finna út úr því hvert hver vír lá og hvernig átti að tengja ljósin og innstungurnar þannig að allt virkaði rétt.

Þegar við vorum að flytja uppeftir man ég að Alli bróðir Gísla Sumarliðasonar var á bílnum sem sótti dótið mitt upp á Hávallagötu. Ég var einn við að bera kassana niður og Alli sem var í rólegheitum á pallinum að koma kössunum fyrir þar sagði mér að slappa af því menn vildu frekar fá mig lifandi en dauðan uppeftir. Líklega hef ég verið fullákafur við burðinn og jafnvel hálfhlaupið með kassahelvítin.

Fljótlega komst ég svo í kynni við skítlegt eðli Strympurollnanna sem skitu einkum á tröppurnar fyrir framan búðina og veitingahúsið ef það mætti verða til þess að ferðamönnum fækkaði á Snæfellsnesinu.

Skömmu eftir að ég kom að Vegamótum var búist við að forsætisráðherrann yrði þar á ferð daginn eftir. Bragi Ingólfsson sem þá vann í búðinni hjá mér lýsti því yfir að það væri sérstakt tilhlökkunarefni að fá tækifæri til þess að sjá forsætisráðherra landsins. Eflaust hef ég af þessu tilefni sagt frá því þegar ég beinlínis rakst á Bjarna Benediktsson í Austurstræti í mannfjöldanum á einhverjum 17. júní hátíðahöldum. (Já, hann var lítill og feitur.)

Um nóttina brann sumarbústaður forsætisráðherra á Þingvöllum. Þegar ég vakti Braga um morguninn til þess að hann gæti mætt í vinnuna sagði ég honum að ekki fengi hann þá ósk sína uppfyllta að sjá Bjarna Benediktsson og ég man að honum varð talsvert um þau tíðindi sem ég sagði honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þeir hafa væntanlega hist skömmu síðar.... bara á öðrum og betri stað.

Anna Einarsdóttir, 1.10.2007 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband