86. blogg

Um dauðans óvissa tíma.

 

Mér hefur alltaf staðið ógn af dauðanum. Einu sinni var ég sannfærður um að ég mundi deyja ungur. Nú er ljóst að svo verður ekki.

Fyrir nokkru síðan var ég líka sannfærður um að ég mundi eiga stutt eftir. Í mesta lagi mánuði eða misseri. Þetta reyndist síðan einnig hin mesta firra. Já, það lifir lengst sem hjúum er leiðast, eins og segir í máltækinu.

Bjarni í kaupfélaginu sagði mér einu sinni að hann væri svo hræddur við að deyja að hann hrykki stundum upp með andfælum um miðjar nætur við tilhugsunina eina saman. Þetta fannst mér merkilegt.

Eins og margir vita þá byrjaði Hveragerði í raun að byggjast af krafti á stríðsárunum (1939 - 1945). Er virkilega ástæða til að setja þessi ártöl þarna? Ekki finnst mér það. Áður hafði einkum verið um að ræða sumarhúsabyggð þar. Það þótti góður kostur að hægt var að hita húsin þar með hveravatni á ódýran hátt.

Pabbi var einn af frumbyggjunum þarna og flutti á þessum árum með fjölskylduna frá Drumboddsstöðum í Biskupstungum til Hveragerðis.

Bjarni Tómasson var einnig einn af frumbyggjunum í Hveragerði. Sonur hans, Óskar Bjarnason, var einn af kunningjum mínum en fáeinum árum eldri. Við tókum báðir þátt í knattspyrnuæfingum og kepptum í raun um þann heiður að fá að standa í marki hjá úrvalsliði Hveragerðis í fótbolta.

Ég minnist leikja við t.d. Hvolsvöll. Sá leikur fór fram á nýslengnu túni þar sem ekki hafði verið leikin knattspyrna fyrr og mörkin voru bara tvær stengur. Einnig lékum við einhverju sinni við úrvalslið úr Arnarbælishverfi. Selfyssingar voru þó að sjálfsögðu aðalóvinurinn. Einhverju sinni lékum við gegn rökurum í Reykajavík á Háskólavellinum svonefnda. Seinna (líklega svona laust eftir 1960) lékum við svo við Hafnfirðinga í Hafnarfirði. Sá leikur fór illa. Ég man ekki betur en við höfum tapað 14:0

Guðmundur bróðir Óskars var bekkjarbróðir minn. Óskar dó ungur úr krabbameini. Hann dó heima. Guðmundur bróðir hans hafði sagt við einhvern sem spurði um líðan Óskars daginn sem hann dó:

"Ja, hann dó nú í morgun."

Guðjón Guðjónsson í Gufudal sem var hrekkjusvín mikið í skóla og ógnvaldur okkar hinna gerði grín að Mumma fyrir þetta og hermdi eftir honum.

Mér fannst þetta óvirðing hin mesta og þótti honum hefnast fyrir það þegar hann dó sjálfur nokkru seinna.

Á þessum árum dó einn af kennurum Barna- og Miðskólans í Hveragerði úr heilablóðfalli. Það var Hróðmar Sigurðsson. Þórhallur sonur hans var bekkjarbróðir minn.

Mér er í fersku minni þegar Hróðmar dó og man enn uppnámið og lætin sem urðu þegar það uppgötvaðist að hann hafði fallið til jarðar skammt frá kaupfélginu á leiðinni heim.

Daginn sem hann var jarðsettur var gefið frí í skólanum og þótti mér það sjálfsagt og eðlilegt. Nokkru fyrir jarðarförina vorum við nokkrir strákar staddir í Nýja Reykjafossi. Þórhallur sonur Hróðmars var þar á meðal.

Ragnar kaupmaður í Reykjafossi var eitthvað að ræða við okkur og þar kom tali okkar að við sögðum honum að frí yrði í skólanum vegna jarðarfararinnar.

"Hvað, eins og það taki því að vera að gefa frí þó einn kennari drepist," sagði Ragnar og hló við eins og hans var vani.

Mér þótti þetta afar óvirðulega að orði komist og fannst Ragnari hefnast fyrir þetta þegar hann dó svo sjálfur ekki löngu seinna.

Fyrsta afbrýðisemis morðið sem ég veit um hér á landi, átti sér stað á Reykjum í Ölfusi á sjötta áratug síðustu aldar. Svo vildi til að ég þekkti persónulega bæði morðingjann og hina myrtu. Það var Bjössi fjósamaður á Reykjabúinu sem skaut Concordiu Jónatansdóttur til bana með riffli.

Að sjálfsögðu vakti þessi atburður gríðarlega athygli í litlu plássi eins og Hveragerði. Fjölmiðlar skrifuðu ekki svo ýkja mikið um þetta mál, en sögurnar sem maður heyrði voru þeim mun áhrifameiri.

Ég var lengi að jafna mig á þessum atburði og hann hafði mikil áhrif á mig. Dauðinn hafði fram að þessu ekki verið neitt sem maður velti fyrir sér. Þó var hann alltaf nálægur og þó maður setti hann ekki í samband við sjálfan sig, vissi maður að hann beið í rólegheitum handan við hornið.

Ekki man ég eftir því hvenær ég fór að gera mér grein fyrir því að dauðinn biði okkar allra. Mér er næst að halda að ég hafi alltaf vitað það þó ég hafi náttúrlega eins og flestir unglingar álitið sjálfan mig nánast ódauðlegan.

Af þessu öllu má sjá að ég álít að sýna beri dauðanum virðingu og að mönnum hefnist fyrir léttúðugt og ábyrgðarlaust tal um hann.

En eru þetta ekki léttúðug og ábyrgðarlaus skrif hjá mér?

Mun mér hefnast fyrir þetta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband