85. blogg

Um rabbarbara og gamlar minningar.

Undarlegt með þessar minningar. Stundum flykkjast þær að manni og ætla allt að kæfa, en svo þegar maður reynir að festa á þeim hendur þá er eins og þær leggi strax á flótta.

Síðan er það einfaldlega svo að gamlar minningar eiga það til að vera rangar. Það er ekki skemmtilegt að uppgötva að eitthvað sem maður trúir að sé satt og rétt reynist vera tóm vitleysa þegar til á að taka. Samt er nauðsynlegt að vera við því búinn að svo sé.

Sumar minningar eru eins og myndir. Það er hægt að skoða þær og velta fyrir sér raunveruleika þeirra. Reyna að lagfæra það sem maður er ekki alveg viss um að sé rétt.

Aðrar minningar geta verið einstök orð, lykt, tilfinning eða óljós mynd sem kannski er í einhverju sambandi við aðrar myndir og kannski ekki.

Mér finnst eins og ég sé staddur í húsinu vesturfrá þar sem við vorum árið eftir að brann. Mér finnst eins og ég sé staddur í einskonar þvottahúsi í norðvesturhorni hússins og að þar séu bakdyr.

Þetta með þvottahúsið og bakdyrnar getur þó vel verið tóm vitleysa því það er einmitt svo í húsinu við Hveramörk 6, að í norðvesturhorni þess eru bakdyr og þvottahús.

Á gólfinu liggur allstórt knippi af rabbarbara. Um það er bundið snæri og búið er að skera blöðin af leggjunum. Vel getur verið að þetta séu tíu kíló eða svo, jafnvel meira. Einhver strákur er með mér og ég veit að mamma ætlar að nota rabbarbarann til þess að gera úr honum sultu.

Strákurinn spyr mig hvort ég haldi að við megum fá okkur rabbarbara. Ég gef lítið út á það og langar ekkert sérstaklega mikið í hann, en kalla þó til mömmu:

"Mamma, megum við fá rabbarbara?"

"Já, já."

Við tökum sitt hvorn rabbarbaralegginn og göngum út á götu.

Eiginlega er minningin ekki lengri en þetta. Þó er önnur mynd sem örugglega tengist þessari og er um það að strákurinn segir við mig:

"Mikið er mamma þín góð!"

Þetta gerist eflaust nokkru seinna og kannski þar sem við röltum eftir götunni og nögum okkar rabbarbara.

Af hverju þessi minning er svona föst í huga mér, er mér ekki nokkur leið að skilja. Á sínum tíma man ég að mér fannst þessi athugasemd stráksins í mesta lagi undarleg, en eiginlega ekki neitt til að gera veður útaf.

Mér finnst líka undarlegt að ég get ekki með nokkru móti munað hvaða strákur þetta var.

Seinna man ég að ég velti því fyrir mér hvort virkilega væru til mæður sem ekki vildu gefa börnum sínum rabbarbara jafnvel þó þær nóg af honum.

 

Jæja, þá er komið að því. Bjarni fer af stað í ævintýraleit sína til Karíbahafsins í fyrramálið. Klukkan hálfellefu eða svo fer hann af stað frá Keflavík. Fyrst til Boston, þaðan til Fort Lauderdale og svo samdægurs til Nassau á Bahamaeyjum.

Það er örugglega ekki lítið átak að hefja svona algjörlega nýtt líf eins og hann gerir. Gifta sig og flytjast síðan í nýtt land í annarri heimsálfu.

Samt er þetta eflaust minna átak nú en áður var. Mér verður t.d. hugsað til Vesturfaranna svonefndu, sem fluttu til Bandaríkjanna og Kanada um og nokkru fyrir aldamótin 1900. Þá var fólk beinlínis að flýja sult þann og seyru sem beið þess hér á landi.

Það er ekki alltaf viðurkennt af öllum, en í raun var á þessum tíma hungursneyð á Íslandi. Gjarnan er reynt að fegra aðstæður og framan af var reynt að gera lítið úr Vesturfara-agentum og þessháttar fólki. Samt er hafið yfir allan vafa að þetta fólk komst ágætlega af, þó fyrstu árin hafi eflaust verið mjög erfið.

Einkennilegt finnst mér alltaf að svo virðist sem sama fólkið lofsyngi viðleitni til viðhalds þjóðernis ef við erum réttu megin borðsins, en sé tilbúið til að fordæma samskonar viðleitni hjá innflytjendum til Íslands nútímans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband