79. blogg

Jæja, þá er Bjarni frændi minn Harðarson lentur í klónum á kjaftaskinum Össuri.

Ég sá viðtalið við Bjarna á Stöð 2 og datt strax í hug að vel mætti búast við athugasemdum við sumt af því sem hann sagði, en ég átti ekki von á þeirri dembu sem Össur sendir frá sér.

Mér finnst eins og Bjarna að svonalagað sæmi ekki ráðherra. Hann lætur eins og einhver andskotans bestía. En þetta er hans háttur. Auk þess að vera kjaftaskur þá er maðurinn ritfær í besta lagi.

Mér finnst Össur hafa breyst talsvert eftir að hann beið lægri hlut fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Jafnvel að hann sé orðinn vandamál fyrir Samfylkinguna.

Ég er ekkert viss um að ágreiningur milli manna í þessu Valhallarmáli sé mikill. Þingvallanefnd er ekki hafin yfir gagnrýni og mörg vitleysan hefur þar verið gerð.

 

Starfsemi Netútgáfunnar sem ég stjórnaði ásamt Bjarna, Benna og Hafdísi hófst í janúar árið 1997. Ég man eftir því að á afmælisdag Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember árið áður var heilmikið húllumhæ og dagurinn kallaður "dagur íslenskrar tungu". Það munaði ekki miklu að okkur tækist að hefja starfsemina þá en það tókst þó ekki, svo það drógst fram í janúar 1997.

Það var Hafdís sem átti hugmyndina að Netútgáfunni og nafninu á henni. Upphaflega var hugmyndin sú að vinna að þessum málum í samvinnu við Ísmennt þar sem ég var félagi, en þá varð það fyrirtæki gjaldþrota og fékk því aðeins að halda áfram að eingöngu væri þar skólafólk. Björn Davíðsson sem þá stjórnaði Snerpu á Ísafirði leyfði mér að hafa skrár Netútgáfunnar á tölvu fyrirtækisins og þannig komst útgáfan á Netið.

Margs er að minnast frá þeim árum þegar starfsemi Netútgáfunnar stóð sem hæst. Lengi vel settum við alltaf eitthvert efni á vefsetur útgáfunnar í hverjum mánuði. Yfirleitt var það svo að Benni skannaði efni og ég las það yfir og leiðrétti, html-aði það síðan, sem við kölluðum, og setti svo með ftp-forriti á vefsetrið. Í þá daga þurfti að setja html merki handvirkt inn í textann og einnig þurfti ég í hverjum mánuði að breyta svo og svo mörgum menú-um sem voru í sérstökum skrám.

Það var síðan um haustið 2001, ef ég man rétt, sem starfsemi Netútgáfunnar lauk, ef svo má segja. Það hefur ekkert nýtt efni verið sett síðan þá, en að sjálfsögðu er efnið þarna ennþá og ég held að það sé eitthvað notað.

Margir kannast við Netútgáfuna og það er örugglega með því merkasta sem ég hef gert, að koma henni á laggirnar. Hún var þó auðvitað barn síns tíma og þó ég mundi gjarnan vilja taka þráðinn upp aftur, þá þyrfti mörgu að breyta þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband