74. blogg

Einhver var að blogga hér á Moggablogginu um Jónas Svafár fyrir stuttu. Það er svo merkilegt að á sínum tíma lærði ég eitt ljóð eftir Jónas.

Það er einhvern vegin svona:

Andi minn glímdi við Guð

og það var gasalegt puð.

En eftir dúk og disk

dró ég úr honum fisk.

 

Minnið hef ég misst,

mælti Drottinn sem var að pissa.

Hvernig höfum við hist?

Hvenær var það fyrst?

Mikið er ég hissa.

 

Ég tók hendinni um hnakkann

og hneppti frá mér frakkann.

Það var helvíti heitt,

og hjartað var farið úr skorðum.

Það hneig niður himinbrattann

og hikstaði framan í Skrattann

þessum þrettán orðum:

 

Þyrstur af trega ég teiga.

Tæmi flöskur og fleiga.

Friðlausa guðaveiga.

 

Líklega hefur þetta ljóð verið í ljóðabókinni Geislavirk tungl sem samkvæmt mínum Sputnikfræðum gæti vel hafa komið út árið 1957.

Atomskáldin svokölluðu voru oft hrútleiðinleg. En ekki Jónas Svafár (sem sagt var að hefði sofið í ár og þessvegna sé nafnið skrifað svona) og heldur ekki Dagur Sigurðarson. Fyrir margt löngu las ég bækur eftir þá báða og þótti skemmtilegar.

Einhverju sinni var ég staddur í fornbókaversluninni sem þá var á Laufásvegi 2 eða 3. Þangað kom maður sem vildi selja fáeinar bækur. Fornbókasalinn, sem ég get ómögulega munað hvað hét, keypti af honum bækurnar en hafði þó sýnilega ekki mikinn áhuga á þeim og sagði við mig þegar maðurinn var farinn: „Þetta var Jónas Svafár. Ósköp er hann orðinn illa farinn, greyið."

Þetta var að vísu allmörgum árum eftir að ég lærði ljóðið hér að ofan, en mér þótti þetta samt merkilegt.

Eitt sinn birtist að mig minnir í Lesbók Morgunblaðsins ljóð eftir Dag Sigurðarson sem hér: „Meðvituð breikkun á raskati" og mig minnir að það hafi fjallað um mann sem keypti sér breiðan amerískan bíldreka. Það var líka hann sem samdi ljóðið:

Raun vísinda

Stofnun Háskóla Íslands.

 

Vel gæti ég trúað að rétthugsandi bókmenntafræðingar mundu ekki telja mikið til þessara tveggja skálda koma, en fyrir mér eru þeir meðal merkustu ljóðskálda tuttugustu aldarinnar.

Langáhrifamesta sjálfsævisaga sem ég hef lesið er „Í verum" eftir Theodór Friðriksson og það tel ég að sé einhver merkasta ævisaga sem rituð hefur verið á íslensku. Eflaust eru þó margir mér ósammála um það.

Á sínum tíma las ég bækurnar „Sjálfstætt fólk" eftir Laxness og „Gróður jarðar" eftir Knud Hamsun á mjög svipuðum tíma og tók auðvitað eftir því hve þær sögur fjalla um líkt efni. Allt sem frá Laxness kom eftir að hann skrifaði Sjálfstætt fólk fannst mér stefna niður á við. Leikritið Dúfnaveislan fannst mér t.d. alltaf vera endemis bull.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband