72. blogg

Skákhornið er spjallborð þar sem aðallega er rætt um skák. Það er linkur á það hér til hliðar á þessari síðu.

Þarna fara oft fram merkilegar umræður og allmargir virðast skoða reglulega það sem þarna fer fram. Þrír menn eru þar sem skrifa hver öðrum betur um skák en eru því miður alltaf að rífast.

Þetta eru þeir Snorri Bergz, Torfi Stefánsson og Sævar Bjarnason. 

Fleiri láta náttúrlega ljós sitt skína þarna og skrifa margir hverjir ljómandi skemmtilega og margir þeirra blogga líka bæði á Moggablogginu og annars staðar. 
 

Það jákvæða við þessa þrjá sem ég nefndi í upphafi er að þeir rífast langmest hver við annan og láta annað fólk yfirleitt í friði. A.m.k. ef það  abbast ekki upp á þá. 

Ég held að það sé Sigurbjörn Björnsson sem stjórnar umferðinni þarna núna og því er ekki að neita að umræður þarna gerast stundum svo rætnar og persónulegar að nokkrum sinnum hefur þurft að útiloka menn frá frekari umræðum.  

Svo er eitthvað þarna líka sem heitir Gjallarhornið og þar er einkum rætt um knattspyrnu. Ég er nú að mestu leyti hættur að nenna að lesa það sem þar er skrifað enda eru menn þar svo yfirgengilega fróðir um knattspyrnu (þó skákmenn séu) að það er ekki fyrir venjulegt fólk að fylgjast með. 

Í skákfréttum er það helst að Friðrik Ólafsson mun taka  þátt í skákmóti í Hollandi í ágúst n.k. Þetta er lokað mót að ég held og meðal þátttakenda er Oscar Panno og svo eittthvað af yngri meisturum. 

Já og svo er  það náttúrlega Kaupþing Open í Luxemburg sem ég hugsa að ég fylgist mest með á blogginu hans Snorra.

Merkilegt hvað íslenskir fjölmiðlar segja lítið frá skák og það í gúrkutíðinni miðri. Frekar vilja þeir skrifa um einskisverða hluti ef þeir mögulega finna eitthvað slíkt. Öðruvísi mér áður brá.  

Annars er mikið hægt að finna um skák á Netinu ef vilji er fyrir hendi. Ef leitað er að íslensku efni er líklega best að byrja á skak.is 

Eitthvað minntist ég á kajakbrjálæðinga í síðasta bloggi. Það minnir mig á að Guðrún og Guðmundur voru einhvern tíma í mesta sakleysi að ganga í mannlausri fjörunni í Fljótavík þegar kajakfólk birtist þar skyndilega og óforvarendis. 

Þetta minnir mig að Guðrún hafi sagt mér. Guðmundur sagði mér líka söguna af því þegar hann veiddi silung handa fjölda manns sem var þar í gönguferð. Hjálpaði þeim síðan við að sjóða hann og spilaði að lokum fyrir þau á harmonikku. Þetta allt var þó aukageta við aðalstarfið sem var  að dytta að skálanum. 

Já, Fljótavíkurferðin, hún var um margt eftirminnileg og hefði mátt skrifa langa og ítarlega ferðasögu um hana. Ekki verður það þó gert hér og nú, en hver veit nema ég eigi eftir að minnast oftar á hana.   

Talaði í dag við Vigni og hann hafði góð orð um það að sjá um parkettlagningu á íbúðina hjá Benna. Vel er hugsanlegt að úr þessu verði um næstu helgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband