71. blogg

Ég les aldrei gömlu bloggin mín og finnst eins og ég sé stundum að endurtaka mig. Óþægileg tilfinning.

Ég ætla þess vegna ekkert að vera að skrifa um það sem ég skrifa oftast um.

Ég hef svo gaman af að snúa við máltækjum að kannski halda sumir að ég sé svona vitlaus. T.d. segi ég aldrei að það sé betra að hafa vaðið fyrir neðan sig, heldur fyrir ofan. Ég segi miklu frekar þar kom horn úr hljóði, en þar kom hljóð úr horni. Ég segi líka alltaf það er ekki hundur í hættunni þó ég viti að það sé réttara að segja hundrað í hættunni (en hverslags hundrað er þetta eiginlega? - er þetta "game" i bridds eða hvað?)

Hér ætlaði ég að setja sögu um einhverja endurminningu sem tengdist vel þessum inngangi en nú man ég hana ekki lengur - árans.

Ágætis blogg er bloggið hans Snorra Bergz. (hvala.blog.is) Hann er núna staddur á skákmóti í útlöndum ásamt fleiri Íslendingum og ég er að hugsa um að fylgjast með því sem þar gerist.

Verst með svona fylgingar að ég gleymi stundum að halda þeim áfram eins lengi og skyldi. T.d.  ætlaði ég fyrir nokkrum árum endilega að fylgjast með bloggi fólks sem reri umhverfis Ísland á kajökum og var það talið í fyrsta sinn sem slíkt var gert. Svo missti ég af endinum en held að þetta hafi tekist og að nú sé Ísland orðið eftirsótt af öllum kajakbrjálæðingum heimsins.

Mér sýnist á teljara þeirra Moggabloggsmanna að lesendum mínum sé jafnvel að fjölga. Kommentum fjölgar þó ekki. Eiginlega eru þau nokkuð fá. Hæ, þið sem lesið, þið megið alveg kommenta. Ég held að allir geti það - hvort sem þeir eru Moggabloggsmenn eða ekki. Jafnvel Stefán Pálsson gæti kommentað hérna - eða ekki veit ég betur.

Ég vil taka það fram svo það valdi ekki misskilningi að þessar sífelldu skiptingar milli feitletrana og ekki feitletrana og þess háttar er ekki runnið undan mínum rifjum. Þetta eru prívat-samskipti milli word-sins sem ég nota og þeirra Moggabloggsmanna.

 

Jói fór í aðgerð á hné á föstudaginn, en hún tókst ekki alveg sem skyldi því í fyrrinótt fór að blæða úr sárinu. Ég veit ekki hvort það bendir til þess að aðgerðin takist kannski ekki eins vel og vonast var eftir. Það kemur þó allt í ljós.

Nú fer að styttast í að Bjarni flyjist alfarinn af landinu. Þetta verður gríðarleg breyting fyrir hann og auðvitað fyrir okkur líka. Í gegnum Internetið munum við þó eflaust halda sambandi við hann, en það er ekki það sama og að hann sé hér sjálfur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það liggur í augarins eðli að ég verð að kvitta núna.  Takk fyrir vísuna.

Anna Einarsdóttir, 8.7.2007 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband