4.7.2007 | 21:52
67. blogg
Þegar Bjarni í Kaupfélaginu (Bjarni Sigurðsson frá Haukadal, sonur Sigurðar Greipssonar skólastjóra og kennara við Íþróttaskólann þar) tók að sér ruslahreinsunina í Hveragerði breyttist margt í þeim málaflokki.
Áður hafði þetta verið unnið þannig að fenginn var á leigu vörubíll og vinnuflokkur frá hreppnum ók síðan með honum um þorpið og tók ruslatunnurnar við húsin og raðaði þeim á bílpallinn og merkti þær. Síðan var farið með tunnurnar á öskuhaugana og þær losaðar þar og síðan ekið með þær að húsunum aftur. Þetta tók gjarnan einhverja daga.
Á þessum tíma tíðkaðist að menn bjuggu til sínar ruslatunnur sjálfir. Flestir gerðu það með því að taka botninn (þann með sponslokunum) úr 200 lítra olíutunnu og höggva nokkur göt á hliðar tunnunnar með viðarexi eða skarexi. Það var gert til að betur brynni í tunnunni því langflestir tíðkuðu það að kveikja í ruslinu, enda var ekki búið að finna upp hugtakið mengun þegar þetta var.
Sumar tunnur voru reyndar svo fínar að ekki þótti viðeigandi að gera þær að ruslatunnum. Ég man t.d. eftir einni sterklegri hálftunnu með voldugum megingjörðum sem lengi var til heima og við krakkarnir stunduðum mjög að ganga á. Það þótti ágæt íþrótt á þessum tíma að geta staðið á tunnu sem var á hliðinni og látið hana velta áfram án þess að missa jafnvægið og þurfa að hoppa niður af henni.
Þegar Bjarni tók að sér sorphreinsunina í þorpinu samkvæmt tilboði (að ég held) byrjaði hann á því að kaupa sér vörubíl og setja á hann há skjólborð. Þegar hreinsa skyldi sorp fékk hann svo tvo til þrjá stráka í lið með sér (ég var stundum í þeim hópi) og ók síðan eins og eldibrandur um þorpið og þegar hann kom að íbúðarhúsi þaut hann út úr bílnum greip ruslatunnuna sem þar var og þeytti henni upp á bílpall og hélt síðan áfram að næsta húsi. Á pallinum voru strákar sem áttu að sjá um að losa tunnuna og henda henni síðan aftur af pallinum. Einn strákur rölti síðan á eftir bílnum og setti tómu tunnurnar aftur á sinn stað.
Við síendurteknar íkveikjur fóru tunnurnar sjálfar á endanum að láta á sjá og stundum kom fyrir að tunnuvesalingar lögðust alveg saman þegar þeim var hent niður af pallinum.
Eitt vandamál var að stundum hittist svo á að einmitt þegar við vorum að hreinsa var logandi í sumum tunnunum. Mun erfiðara og hættulegra var að losa slíkar tunnur og við bar að kviknaði í hlassinu á bílnum og þurfti þá að aka í flýti á öskuhaugana og sturta af bílnum.
Í eitt skipti sem mér er sérlega minnisstætt var ég einn á pallinum að losa tunnurnar og mátti hafa mig allan við til að hafa við Bjarna sem þeytti til mín tunnum í stríðum straumum enda var hann íþróttamaður góður og a.m.k nokkrum sinnum glímukóngur Skarphéðins. (Héraðsmót Skarphéðins á Þjórsártúni væri eitthvað sem ég gæti skrifað um seinna meir muna það). Á eftir tölti síðan Jón Bensín og drógst æ meira aftur úr eftir því sem á leið, en hans hlutverk var að koma tómu tunnunum aftur að húsunum.
Eftir nokkurra klukkutíma stífa törn og tvær ferðir niður að Völlum á öskuhaugana var verkinu þó lokið og við kveiktum svo í ruslinu sem var á haugunum þegar við vorum búnir að losa bílinn í seinna skiptið og skemmtum okkur við að reyna að drepa rotturnar þegar þær flýðu eldinn í sorpinu.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.