66. blogg

Mér sýnist óvenju mikið hafa verið skrifað um blogg á Moggabloggin að undanförnu. Það er ekki skrítið því greinilegt er að nú um stundir er þetta vinsæl aðferð til að tjá hugsanir sínar. Eðli bloggsins er aftur á móti ekki svo auðvelt að skilgreina.

Tilgangurinn getur verið misjafn og margvíslegur. Ekki sé ég að hægt sé að skilgreina bloggin sem fjölmiðla, til þess eru þau of dreifð og sundurlaus. Sum þeirra ná að vísu til nokkuð margra en sum eru augljóslega skrifuð fyrir fáa. Sum eru áberandi illa skrifuð en önnur betur og svo eru þau sífellt að koma og fara. 

Einn af bloggvinum mínum, Sigurður Þór Guðjónsson rithöfundur og veðurspekúlant var með sérstakan blogg-óvinalista þar til fyrir skömmu að hann breytti um nafn á honum að mér sýnist. Þetta er samt ágætur listi og þarna eru saman komnir nokkrir af mínum uppáhaldsbloggurum. 

Utan Moggabloggsins eru að sjálfsögðu margir ágætir bloggarar og mér finnst sjálfsagt að halda nöfnum þeirra á lofti. Sjálfur er ég að hugsa um að koma mér upp lista yfir bloggara sem mér finnst gaman að heimsækja.  

Auðvitað er ekki líklegt að margir notfæri sér þann lista en ég get þó a.m.k. notað hann sjálfur. Þó einfalt sé að setja blogg sem manni líst sæmilega á í bookmark þá er ekki fullt gagn að því. Bookmörk geta glatast og svo vill maður stundum geta notað aðrar tölvur vandræðalaust. 

Að sumu leyti virðast bloggin hafa komið í staðinn fyrir spjallsíður sem voru mjög vinsælar og þau eru greinilega eins misjöfn og þau skrif voru. Að mörgu leyti henta þau samt betur og virðast ýta undir það að menn komi fram undir nafni, sem er mjög til bóta. 

Auðvitað getur alltaf verið nauðsynlegt að koma fram nafnlaus og vettvangur fyrir slíkt þarf að vera til. Nafnleysið var hins vegar misnotað herfilega á spjallsíðunum og umfjöllun þar oft á tíðum ekki mönnum bjóðandi. 

Samskipti fólks og einskonar samtöl sem oft fóru fram á spjallsíðunum hafa núna færst á kommentakerfi bloggsíðnanna og er það vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband