65. blogg

Vísindin og tæknin hafa til þess fundið ráð / að taka upp ræður þingmanna á fínan segulþráð....

Svona byrjaði bragur einn sem ég af einhverjum ástæðum man eftir úr Speglinum gamla. Mynd sem fylgdi sýndi Bjarna Benediktsson sem síðar varð forsætisráðherra halda utanum míkrófón og hrista hann til og segja já, en mikrófónninn var hinn þverasti og sagði nei. Undir myndinni stóð að mig minnir „sagði Bjarni já eða sagði hann nei?"

Myndin hefur næstum áreiðanlega verið teiknuð af Halldóri Péturssyni og þetta hefur eflaust verið þegar verið var að byrja að taka ræður þingmanna upp á segulband. Þingmenn hafa þá eins og nú áreiðanlega viljað túlka ummæli sín í samræmi við breyttar aðstæður.

Margt var um skemmtilega bragi í Speglinum. Ógleymanlegt er ljóðið um Stóru Bombuna. (Hver veit nær söðlar Daníel?) Faraldur var líka skemmtileg týpa. Ég man að ég las alltaf þáttinn hans sem ég held endilega að hafi verið nefndur:  „Rakarinn minn sagði:"

Baggalútur er um margt arftaki Spegilsins, þó mér finnist nú fyndni þeirra oft nokkuð einhæf og svo hafa þeir ekki þessa ógleymanlegu bragi.

Jarmið í Stebba Páls um Moggabloggið virðist vera að ná nýjum hæðum. Hann er nú tekinn upp á því, skilst mér, að reyna að rökstyðja þessa vitleysu sína. Á sama tíma er hann tekinn að hasast upp á því að finna nýja bölbæn um Moggabloggið í sérhverju af sínum bloggum.

Eiginlega nenni ég ekki að fjölyrða að neinu ráði um þetta en satt að segja hefur Stefán lækkað talsvert í áliti hjá mér við þetta allt saman. Ég les samt bloggið hans alltaf reglulega enda er hann fínn bloggari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband