60. blogg

Benni er í bústaðnum á Drumboddsstöðum. Fór þangað á Volvoinum á föstudaginn því Toyotan er með bilaðan vatnskassa en var reyndar alveg til friðs ofan frá Húsafelli.

Í lok næstu viku stendur til að við förum í Fljótavík. Bjarni er að ljúka við að setja íbúðina í stand og í gær fór ég og hjálpaði honum að setja upp hurðina fyrir baðið. Á mánudaginn er væntanlegur maður frá fasteignasölunni til að taka myndir.

Á þriðjudaginn var fundur hjá okkur upp í Mjólkursamsölu þar sem við fórum yfir mæladót og þess háttar sem fylgjast þarf með. Annars er ég kominn í sumarfrí og vinn ekki í næstu viku. Um mánaðamótin byrja ég svo aftur að vinna og á inni afganginn af sumarfríinu.

Veðrið er svosem ágætt um þessar mundir. Ekki sólskin og lítill vindur en heldur kalt. Vonandi verður gott veður í næstu viku, svo er mér sama þó fari að rigna og kólna. Guðmundur Grettisson sagði mér að hann hefði siglt framhjá Fljótavík um daginn og þá hefði verið þar snjór alveg niður í fjöru.

Vorum í grillveislu í garðinum hjá Hafdísi og Guðmundi í gær. Þar var stærðar tjald og logandi í tveimur ofnum. Samt sem áður var hálfkalt þar. Benedikt Henry er á Íslandi um þessar mundir og margir mættu í veisluna. Benni kom frá Drumboddsstöðum og hann og Bjarni fóru dálítið á undan okkur. Ég drakk þar marga bjóra og var farinn að finna svolítið á mér undir lokin svo Áslaug keyrði heim.

Í dag er sunnudagur og á eftir förum við Áslaug sennilega til þess að hjálpa Bjarna að koma íbúðinni í stand fyrir morgundaginn.

 

UM  NETÚTGÁFUNA  (framhald)

Þó saga Netútgáfunnar sé merkileg í sumra augum þá bendir hún svosem ekki á neinn hátt til framtíðar. Það er mála sannast að víða um lönd eru á Internetinu söfn þjóðlegra bókmennta sem komin eru úr vernd höfundarlaga.

Netútgáfan var að mörgu leyti einstakt framtak á sínum tíma og ég er dálítið hissa á því að ekki skuli hafa komið fram neitt hliðstætt á þeim 5 árum sem Netútgáfan hefur ekki starfað.

Margt hefur þó gerst í sambandi við bóka- og tímaritaútgáfu á Netinu, en flest er það tengt vísindum og fræðum. Varahlutalistar og allt þess háttar er eiginlega alfarið komið á Netið líka, en bókaútgáfa fyrir almenning hefur alls ekki færst þangað.

Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess víða um lönd að selja bækur á lágu verði sem tölvuskrár en þær tilraunir hafa ekki tekist ýkja vel. Það er ekki nóg að hafa yfir merkilegu efni að ráða, ef fáir eða engir vita af því. Kynningarmálin hafa oftast nær verið erfiðast hjallinn hjá þeim sem vilja hasla sér völl án þess að leita til hinna hefðbundnu bókaforlaga.

Einnig er það óneitanlega svo, að enn þykir flestum betra að lesa sér til skemmtunar á bók heldur en á tölvuskjá og ef prenta á út þær tölvuskrár sem keyptar eru er sparnaðurinn enginn orðinn hjá neytendunum. Einnig hefur tilfærsla fjármuna á Netinu alltaf verið dálitlum erfiðleikum háð og mörgum finnst enn eins og á árdögum Netsins að þar eigi allt að vera ókeypis.

Þegar við vorum að hefja starfsemi Netútgáfunnar var það ofarlega í huga margra að bækur og bóklestur væri heldur á undanhaldi. Netið mundi að miklu leyti taka yfir hlutverk bókanna og fólk mundi sækja sínar bækur og tímarit í sívaxandi mæli af Netinu.

Svo hefur þó alls ekki farið, bókin heldur svo sannarlega velli. Oft hefur það verið svo að menn hafa illa séð fyrir hvert tækninýjugar stefna. T.d. álitu sumir símann ekki vera merkilega uppfinningu á sínum tíma.

Ég held að bókin  (og blöðin) haldi einkum velli vegna þess að prentað mál hefur beinan og milliliðalausan aðgang að lesendum. Allir aðrir miðlar þurfa að einhverju marki að leita á náðir tækninnar og þar eru sífellt að koma fram nýjungar sem á stundum gera það sem eldra er úrelt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband