56. blogg

Séra Magnús (sem settist upp á Skjóna og líktist ekki neinum dóna) var eitt sinn á ferðalagi ásamt fleira fólki.

Að þessu sinni var séra Magnús ríðandi á brúnum hesti. Með í flokki var brún hryssa sem líktist nokkuð hesti Magnúsar. Eitt sinn þegar áð hafði verið settist Magnús í ógáti á bak merinni. Samferðafólkið lét kyrrt liggja en skömmu síðar þegar stansað var og sumir hestanna þurftu að kasta af sér vatni gellur í Magnúsi: "Hér þarf eitthvað við að athuga. Sjáið hvernig sá brúni mígur" og er það haft að orðtaki síðan.

Borgarbarn nokkurt í sveit var að lýsa hestum sem það hafði haft einhver afskipti af og lýsti einum hestanna þannig að hann hefði verið skjöldóttur. Þessi fráleita orðnotkun varð til þess að umræddur hestur var alsaklaus uppfrá því aldrei kallaður annað en "Skjöldótta merin!"

Þeim sem lítið vita um litarlýsingar gripa skal bent á að aðeins kýr geta verið skjöldóttar. Séu hestar þannig á litinn eru þeir skjóttir. Þegar ég fór í sveit í fyrsta sinn var mér sagt að aldrei væri sagt að hestar væru hvítir eða svartir heldur alltaf gráir eða jarpir. Hestarnir tveir á bænum hétu auðvitað Gráni og Jarpur og var annar þeirra hvítur en hinn svartur.

Ég hef ekki oft komið á hestbak og líklega dottið næstum því eins oft af baki. Mér er þó minnisstætt að þegar ég fór fyrst á bak var það fyrir framan strák sem útskýrði fyrir mér hvað gangtegundir hestsins hétu. Það endaði auðvitað með því að við duttum báðir af baki.

Einu sinni ætlaði ég að stela mér hesti og ríða eitthvert út. Gerði einskonar beisli út snærisspotta og fann heppilegan og óhvumpinn klár. Þegar ég var kominn á bak ákvað hesturinn að fá sér smávegis að bíta og þarsem þetta var í nokkrum bratta gat ég ekki með neinu móti stöðvað mig þegar hesturinn beygði sig fram og rann framaf honum.

Eitt sinn kom ég á hestamannamót á Hvítárbökkum í Borgarfirði og hitti þar Ingólf á Flesjustöðum sem þar var drukkinn með tvo til reiðar. Hann vildi endilega að ég færi á bak aukaklárnum og ætlaði sjálfur á bak hinum og tók undir sig stökk en fór því miður yfir hestinn og niður hinum megin. Ég man að það sem vakti hvað mesta athygli mína á þessu hestamannamóti var hve mikill fjöldi manna var þar mígandi út um allar jarðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband