3219 - Ein sagan enn

Ekki hefur mér tekist að skrifa reglulega á þetta blogg, hvað sem verður. Eflaust mun ég reyna það, en valt er að treysta því. Ekki get ég ausið úr viskubrunni mínum, eins og margir gera hér. Nefni samt engin nöfn. Ég hef það eitt mér til ágætis að hafa verið hér lengi og skrifað mörg blogg. Flest eru þau mjög stutt. Þess vegna hef ég brugðið á það ráð að skrifa super-stuttar sögur og birta þær. Hér kemur ein:

Örsaga númer eitthvað. Veit ekki almennilega hve margar ég hef skrifað. Gætu verið svona 20. Einhverntíma gæti hugsast að einhverjum dytti í hug að prenta þetta alltsaman út. Þá á ég við bloggin yfir þrjú þúsund og eitthundrað. Eins gæti ég átt við örsögurnar. Þær eru nefnilega næstum allar í einu skjali, að ég held. Hvorttvegga er þó ákaflega vafasamt.

Þessi er talsvert öðruvísi. Eiginlega eru þær allar öðruvísi. Mér finnst það allavega.

Samt er ég ekki búinn að ákveða hvernig þessi á að vera. Kannski er fullmikið að senda þær á bloggið dag eftir dag. Ætla mætti að ég gæti ekki skrifað annað. Mér finnst ég samt geta skrifað um hvað sem er.

Þegar Hafsteinn kom út á sumardaginn fyrsta varð hann alveg hissa. Í túgarðinum var tvíhöfða hestur. Á báðum hausunum var háls en bringan var bara ein og að öðru leyti var hann eins og hestar eru vanir að vera. Þetta var fallegur hestur og leit vel út. Skjöldóttur eða skjóttur eins og sagt er. Samt var það svo að höfuðin höfðu, eða virtust hafa, sinn sjálfstæða vilja. Þegar annað höfuðið vildi bíta gras var hitt að hugsa um eihvað allt annað. Neyddist samt til að beygja sig alveg niður að túninu, en gæddi sér ekkert á grasinu. Þetta þótti Hafsteini einkennilegt. Hann var að vísu ekkert óvanur því að sjá tvíhöfða hesta, en þeir voru vanir að hafa mjög líkan smekki. Þannig að þegar annar vildi bíta gerði hinn það líka.

Hvernig ætti ég að láta þessa sögu enda? Höfuðin gætu farið að slást. Nei, það væri of venjulegt. Best að láta þau bíta gras sitt í hvoru lagi. Þegar annað vill næringu hefur hitt engan áhuga á því. Og vís versa. Hafsteini fannst þetta skritið en vildi ekki styggja höfuðin. Þessvegna skreið hann ofan í jörðin og lét sig hverfa. Þetta þótti hinsvegar hestinum eða hestunum mjög skrítið.

Þegar Hafsteinn kom út úr jarðveginum vestan við bjórhólinn var honum öllum lokið. Bjórinn var nefnilega búinn. Þar sem þetta var á sunnudegi var ekki neina hjálp að fá. Hafsteinn lagðist því niður og þóttist vera dauður.

Þetta sá örninn sem flaug í hringi langt fyrir ofan skýin og renndi sér þessvegna niður til að sjá þetta betur. Það fór ekki betur en svo að drjólinn vaknaði við vængjasláttinn og örninn fór því bónleiður til búðar.

Hafsteinn var alveg bikasvartur í framan. Þó var hann ekki svertingi. Moldin var bara svona svört. Í Miðskólanum í Hveragerði var okkur nefnilega kennt í fornöld að moldin í Rússlandi væri svört. Kannski gerðist þetta alltsaman þar.

Þetta er reyndar orðin algjör steypa svo líklega er bara best að hætta. Það er að segja þegar ég er búinn að kjósa Framsóknarflokkinn.

  • En afi, þetta er ekkert fyndið.
  • Átti heldur ekki að vera það.
  • Af hverju ertu þá að þessu?
  • Veit það ekki.

IMG 3282Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband