3217 - Ný saga

3217 – Ný saga

Næst á eftir sögunni um nábrækurnar var þessa sögu að finna í skjalinu fyrrnefna:

 

Þessi saga gerist í nútímanum og snýst um óþekkan snjallsíma. Elías litli ákvað að reyna að læra sem best á farsímann sem hann hafði erft eftir mömmu sína. Hún hafði ekki einu sinni haft fyrir því að formatta símann uppá nýtt og þessvegna komst Elías ekki hjá því að fræðast meira um mömmu sína en hann í rauninni kærði sig um. En sleppum því. Það er hvort sem er aukaatriði. Ýmsu komst hann að sem ekki er ástæða til að flíka mikið, þó lesendur vildu sjálfsagt fá að vita um ýmislegt sem mamma hans Elíasar gerði við símann sinn eða sagði honum frá. (ég á að sjálfsögðu við símann, en ekki Elías.)

Hann tók nú uppá því að pota og svæpa sem allra mest og svo fór að lokum að hann var orðinn snillingur í símamálum. Hann þekkti orðið næstum alla leyndardóma símans og foreldrar hans voru farin að leita ráð hjá honum ef eitthvað bjátaði á í snjallsímunum þeirra, sem að sjálfsögðu voru í samræmi við nýjustu tísku.

Verst þótti Elíasi að síminn hans virtist kominn með sjálfstæðan vilja, sem ágerðist mjög eftir því sem tímar liðu og við það að hann kunni smám saman betur og betur á hann.

Til dæmis tók hann uppá þvi að setja sig sjálfur í samband við hleðslutæki í hvert skipti sem þess þurfti með. Og ekki nóg með það. Heldur tók hann sig sjálfur úr sambandi þegar hann var fullhlaðinn.

Elías hefði átt að vera mjög ánægður með þetta, en hann var það eiginlega ekki því honum fannst þetta vera hálfgerð árás á sig. Eitt sinn þegar símafjandinn hafði rifið sig úr sambandi gat Elías ekki stillt sig um að setja hann aftur í samband þó hann vissi alveg að hann væri fullhlaðinn. Svo varð honum litið út um gluggann og sá tvo tjalda vera að slást við máf. Þegar honum varð aftur litið á símann sá hann sér til mikillar furðu að hann var búinn að taka sig úr sambandi. Elías hafði einmitt langað til að sjá hvernig hann færi að þessu og reiddist nú heiftarlega.

Hann tók símann hálstaki og sneri hann niður og settist ofan á hann.

  • Gefstu þá upp ræfillinn þinn. Ég sá alveg til þín. sagði Elias.
  • Þetta var alveg óþörf rafmagnseyðsla. Ég var fullhlaðinn. sagði síminn.
  • Það er alveg sama. Símar með snert af sjálfsvirðinu eiga ekki að gera svona. sagði Elías, saltvondur.
  • Ég veit það alveg, en gat bara ekki stillt mig. svaraði síminn.
  • Viltu þá lofa að gera þetta aldrei aftur? sagði Elías.
  • Já, já.

Þannig tókst Elíasi að ná aftur valdi yfir símanum sínum. En áður en langt um leið tók síminn uppá því að fara sínar eigin leiðir og stundaði það til dæmis að spyrja Gúgla um ýmislegt og svo var hann í slagtogi við gervigreind, sem Elías fýsti að vita meira um, en símafjandinn steinþagði yfir öllu þessháttar, sem ekki var honum líkt. Nánar verður sagt frá þessu í næsta þætti.

IMG 3323Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband