3216 - Nábrækurnar

3216 – Nábrækurnar

Örhugleiðingar nefnist þáttur hjá útvarpi allra landsmanna. Þar láta hinir og þessir ljós sitt skína um hitt og þetta. Oft hlusta ég á þetta. Stundum er þetta ágætt, en stundum lakara, eins og gengur. Kannski er það ekki réttnefni hjá mér að kalla þennan samsetning sem ég hef oft sett á bloggið mitt „Örsögur“. Það er dálítið yfirlætislegt. Hér kemur samt ein slík:

---------------------------------

Einu sinni í fyrndinni var bóndi sem kunni sitthvað fyrir sér. Eins og sagt var. Eiginlega þýddi þetta það að hann var pínulítið göldróttur. Ekki samt neitt líkur Harry Potter enda hafði hann aldrei í galdraskóla komið. Lítið kver átti hann þó þar sem nokkur galdrabrögð voru kennd.

Einhverju sinni komst konan hans að því að hann var að glugga í þetta kver og við lá að hún kjaftaði frá. Honum tókst þó að telja hana á að segja ekki frá þessu. Á þessum tíma var nefnilega harðbannað að eiga galdrakver og áttu menn á hættu að týna lífinu ef upp um þá komst.

Bóndi þessi hét Jón og var Jónsson og bjó að Jónsstöðum í Jónshreppi. Með öðrum orðum ég vil ekki segja nein deili á honum enda skipta þau engu máli.

Í þessu galdrakveri hans Jóns bónda á Jónsstöðum var meðal annars kennt að búa sér til nábrækur. Þær mátti að sögn nota til margra hluta. Grafa þurfti upp lík og fletta húðinni af fótum líksins og allt upp að nafla og urðu þá til þessar fínu nábrækur. Ekki mátti gera þetta nema á fullu tungli og keypti Jón því Almanak hins íslenska þjóðvinafélags. En svo komst Jón bóndi að því að tunglskin þyrfi að vera þegar þetta væri gert.

Fram eftir öllum vetri var ævinlega skýjað þegar fullt tungl var samkvæmt Almanakinu. Seinni part Einmánaðar skeði það hinsvegar að léttskýjað var þegar tungl var fullt. Jón bóndi hugsaði sér gott til glóðarinnar af þessu tilefni. Þá vildi svo illa til að í marga mánuði hafði ekki nokkur maður verið jarðsunginn í Hjallakirkju og ekki gat Jón hugsað sér að grafa upp rotnað eða hálfrotnað lík. Hann brá sér þessvegna upp að Kotströnd, en þar hafði einmitt gamall karlskröggur verið jarðaður fyrir fáeinum dögum.

Ekki eru tök á því að lýsa í smáatriðum hvernig Jón fór að, en nábrækurnar eignaðist hann eftir talsverða fyrirhöfn. Þegar hann fór í brækurnar voru skálmarnar að vísu í styttra lagi en Jón taldi sér trú um að það væri í lagi.

Ekki vildi betur til en svo að hann vissi ekkert og ekki var frá því skýrt í galdrakverinu til hvers ætti að nota brækurnar. Endirinn varð því sá að Jón notaði brækurnar ekkert og þegar fór að slá í þær og lyktin að versna henti hann þeim í fjóshauginn og notaði þær ekkert. Lýkur svo þessari sögu og vel getur verið að hún sé uppspuni frá rótum.

-------------------------------------------

Þessi saga var næst á eftir frásögninni af Guttormi dúllara í skjalinu sem ég nota undir þennan samsetning sem mig minnir að hafi verið sú síðasa sem ég birti áður en ég veiktist og hætti þessari vitleysu.

IMG 3336Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband