3121 - Bergsveinn og Ásgeir

Eiginlega hefði síðasta blogg mitt átt að vera númer 3120. Þessvegna er þetta númer 3121.

Margt væri eflaust hægt að skrifa um. Til dæmis deilur þeirra Bergsveins Birgissonar rithöfundar, kennara og fræðimanns og Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Sá fyrrnefndi hefur víst ásakað hinn síðarnefnda um ritstuld. Meira á eflaust eftir að heyrast um þetta síðar.

Álit mitt á Bergsveini þessum er ekki sérlega mikið. Á sínum tíma las ég formála hans að bókinni um Geirmund heljarskinn. Þar notaði hann alla sína fræðimennskunnáttu og kennarareyslu til að sannfæra lesendur á ca. 70 blaðsíðum (sem er lengsti formáli sem ég hef nokkru sinni lesið) um að til væri, og hefði verið til óralengi, Íslendingasaga ein um Geirumund heljarskinn, en hún hefði ekki komist í hendur fræðimanna fyrr en nýlega.

Það lá við að ég tryði honum vegna þess að ég hafði lesið næstum allar Íslendingasögurnar og þættina, ásamt fornaldarsögum Norðurlanda, Sturlungu og um ýmislegan fornan fróðleik. Einu sinni hafði ég nefnilega talsverðan áhuga á slíku. Þegar kom að því að lesa það sem Bergsveinn sagði vera söguna sjálfa var mér nóg boðið og eftir nokkrar blaðsíður sá ég að ekki var um Íslendingasögu forna að ræða heldur ómerkilega klámsögu þó höfundur reyndi eftir mætti að fyrna mál sitt. Ekki las ég nema mjög lítið af þeirri sögu og skilaði bókinni fljótlega á bókasafnið hér á Akranesi.

Nokkru síðar kom út eftir Bergsvein bók sem nefndist „Leitin að svarta víkingnum“. Hana fékk ég léða nýlega (a.m.k. á covid-tímum) en hef ekki enn lesið hana nema að litlu leyti. Nú hefur Bergsveinn Birgisson fyllst eldmóði og skrifar metsölubækur fyrir hver jól. Ekki hef ég lesið neina þeirra, en vera má að þær séu samt ágætar.

Ekki hef ég lesið nema fremur lítið eftir Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra. Mér hefur ekki þótt maðurinn áheyrilegur þegar hann hefur komið fram í Sjónvarpi allra landsmanna. Vitaskuld segir það ekki nokkurn skapaðan hlut um hæfleika hans að öðru leyti. Vel getur verið að hann sé ágætur rithöfundur og fræðimaður þó hann greini á við Bergsvein um kenningar varðandi rostunga og Geirmund heljarskinn.

Nú nýlega hefur Fornleifur sjálfur (AKA Villi í Köben) blandað sér í deilur þeirra Bergsveins og Ásgeirs og er þar margt áhugavert að finna. Sjálfur ætla ég við tækifæri að lesa ókeypis netbók hans um Halldór Kiljan Laxness. Hann virðist vera helsta áhugamál hans um þessar mundir. Jafnvel á undan Ísrael og ýmsu sem þaðan kemur.

IMG 4051Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Laxness er löngu liðið áhugamál hjá Villa villimanni í Köben. Þegar menn hafa skrifað bók á netinu, slappa þeir af og hafa gaman að dýrkunaráráttu hluta þjóðarinnar vænu í norðri og afneitun þeirri sem hrjáir aðra. Í HÍ er búið að ákveða, að þegja bókina í hel. Goðgá hefur ávallt verið alvarleg sök á Íslandi og því gott að vera í Köben, meðan að einhverjir ærast og eru með alvarlegri einkenni en Omikronið gefur mönnum.

FORNLEIFUR, 29.12.2021 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband