3084 - Houdini

Það eru fremur fáir sem lesa þetta blogg. En mér er alveg sama. Ég vil frekar skrifa mínar hugleiðingar hér á Moggabloggið en á fésbókina. Mér finnst hún of ágeng og lætin eru svo mikil þar að mann sundlar næstum því. Allir hamast við að sýna bestu útgáfuna af sjálfum sér og satt að segja gæti maður haldið að allir væru gallalausir. Þetta er svosem svipað annars staðar t.d. á blogginu og ég áfellist alls ekki þá sem nota þennan samskiptamiðil. Það er samt einum of mikið að þessi stóru alþjóðlegu fyrirtæki í tækniþjónustu, sem eiga þess miðla, séu farin að segja ríkisstjórnum og heilu stórþjóðunum fyrir verkum. Líka selja þau flest þær upplýsingar sem þeim tekst að klófesta.

Gagnrýni á fésbókina og önnur svipuð forrit fer vaxandi. Atli Harðarson, frændi minn og heimspekingur, skrifaði um daginn á „Þjóðmál“ um þrjár bækur sem fjalla um svokallaða félagslega fjölmiðla, en þar held ég að fésbókin standi fremst hér á Íslandi. Ég vil gjarnan benda þeim sem áhuga hafa á þessum málum að skoða þessa grein. Þetta tímarit er að því er ég best veit ritstýrt og jafnvel útgefið líka af Sjálfstæðisflokknum en er ekkert verra fyrir það. Greinarnar þar eru oft mjög athyglisverðar.

Á sínum tíma og fyrir langalöngu las ég ævisögu Harrys Houdinis og er eiginlega bólusettur og ákaflega tortrygginn á allskyns loforð og fagurgala. Einkum varð ég fyrir miklum áhrifum af því sem þar er skrifað um hvers kyns handanheimarugl og miðla, en þeir voru í mikilli tísku á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Ég tók eftir því á „Þjóðmálum“ að nýjasta greinin þar var einmitt um Harry Houdini og hver veit nema ég lesi hana fljótlega.

Það er mikið um að vera í prófkjörum þessa dagana. Áberandi er að sitjandi þingmenn fá margir hverjir hörmulega útreið. Prófkjör ættu að vera sameiginlega hjá öllum flokkunum og um allt land á sama tíma. Þeir sem á annað borð gæfu kost á sér væru skyldugir til að bjóða sig fram í öll sætin og allir mættu gera slíkt. Kannski þyrfti að takmarka þátttöku með einhverju hætti. Það mætti auðveldlega gera með málefnalegum hætti. Kannski yrði þá eitthvað að marka prófkjörin. Eins og nú er eru menn bara að mæla hve þekktir menn eru og hve miklum peningum stuðningsmenn þeirra hafa yfir að ráða. Til hvers er fólk annars að bjóða fram krafta sína, en bjóða sig bara fram í ákveðin sæti? Jú jú, þeir vilja ekki styggja þá sem eru vanir að vera í efstu sætunum. Einmitt útaf þessu var prófkjör Sjálfstæðismanna hér að Vesturlandi athyglisvert, en hættir alveg að vera það ef Haraldur gengur á bak orða sinna.

IMG 4724Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband