3072 - Um forsetakosningar

Ef ég ætti að gefa mönnum bloggráð þá væri það helst að hafa bloggin stutt og skrifa helst daglega. Aldrei ætti að spara hugdetturnar og hugsa sem svo að þetta væri ágætt að nota á morgun eða eftir mánuð. Alltaf að láta það flakka. Auðvitað skiptir máli hvernig sagt er frá því, en þannig skapast stíllinn, ef einhver er og greinarmerkjum má alltaf bæta inn í á eftir. Eða láta þau vanta með öllu.

Bók held ég að heiti: „Lablaða hérgula“. Nenni ekki að spyrja Gúgla um þetta. Hugsanlega er þetta tilkomið þannig að læknir hefur ætlað að segja: „Það er nefnilega það. Ég held að þetta sé, ehemm, hérna gula.“ Svolítið þvoglulegur hefur hann líklega verið svo þetta hefur komið svona út. Annars veit ég ekkert um þetta. Kannski þýðir það eitthvað allt annað.

Eiginlega er ágætt að búa hér á Akranesi. Smám saman hefur sú vinnutilhögun þróast hjá okkur hjónunum að ég sé um að vaska upp (með aðstoð uppþvottavélarinnar) og að búa um hjónarúmið (aðstoðarlaust). Konan mín sér um flest annað. Við erum þó með aðskilinn fjárhag og búðarferðir eru svolítið hipsum haps og veldur það stundum sérkennilegum uppákomum. Auk þess er ég ruslamálaráðherra heimilisins og gott ef það embætti er ekki sífellt að hlaða utan á sig.

Fyrstu forsetakosningarnar sem ég man eftir eru kosningarnar 1952 milli séra Bjarna, Ásgeirs Ásgeirssonar og Gísla Jónssonar. Að sjálfsögðu hafði ég ekki kosningarétt þá, enda bara níu ára gamall, en mamma og pabbi fóru að kjósa og ég hef sennilega sagt frá því hér í blogginu áður. Fyrstu forsetakosningarnar sem ég tók þátt í voru hinsvegar á milli Kristjáns Eldjárns og Gunnars Thoroddsen. Þetta var árið 1968 og við áttum heima í Reykjavík þá. Man að samkeppnin milli þeirra var nokkuð hörð og þeir kepptust við að hafa sem fjölmennastar áróðurssamkomur. Gunnar hélt eina slíka í Laugardalshöllinni og tókst vel að fylla höllina af fólki. Stuðningsmönnum Kristjáns þótti að hann gæti ekki verið minni maður og boðuðu svipaðan fund í Höllinni. Ég sótti þann fund og man að svo fullt var að ég varð að standa úti og ekki einu sinni á góðum stað þar. Þar með var ég orðinn sannfærður um að Kristján mundi sigra. Enda fór svo.

IMG 4866Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er nú ekki undarlegt að þú sért andvaka allar nætur, gerir næstum ekkert á heimilinu, liggur bara í bókum og Netflix, og lætur konuna um að elda og þrífa, Sæmi minn. cool

Og Ómar Ragnarsson getur ekki einu sinni keypt fötin utan á sig án aðstoðar eiginkonunnar, að eigin sögn.

Undirritaður tók fyrst þátt í forsetakosningum árið 1980 og kaus þá Vigdísi Finnbogadóttur en enn gera margir gamlir karlar lítið annað en að fara út með ruslið, elsku kallinn minn. cool

Þorsteinn Briem, 20.5.2021 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband