3061 - Bloggað með hraði

Kannski er ég að komast í þann gírinn að blogga mun oftar en ég hef gert að undanförnu. Vinsælast virðist vera að blogga á þessum stað um stjórnmál og þar að auki með sem ákveðnustum hætti. Þar er ég dálítið illa á vegi staddur því ég er yfirleitt sammála síðasta ræðumanni og sveiflast þannig milli flokka eins og strá í vindi. Allir hafa meira og minna rétt fyrir sér og einfaldast er að vera sömu skoðunar og sá sem maður er að horfa á, lesa eftir eða hlusta á í það og það skiptið. En hvernig á maður að haga sér ef maður skrifar? Einfalt er að leiða hitamál hjá sér eða fara um þau almennum orðum. Þetta er vel hægt að gera, en að lokum verður maður að kjósa og þá er um að gera að gera það rétt. Ég tók uppá því fyrir nokkru að kjósa Píratana og líklega held ég því áfram. Ég ólst nefnilega að nokkru leyti upp með mömmu hennar Birgittu og þegar Sjóræningjarnir komu fyrst fram var ég eiginlega á milli flokka, því ég á alltaf svo erfitt með að ákveða mig. Valkvíði heitir það víst.

En látum stjórnmálin eiga sig og tölum um eitthvað skemmtilegra. Eldgosið er að ég held ópólitískt með öllu þó það sé víst í Suðurlandskjördæmi. Ekki er það nú ónýtt að fá svona túristagos í lok veirufaraldursins. Annars verð ég sennilega að tala varlega hér því viðbrögðin við veiruskömminni eru eða virðast vera á góðri leið með að verða hápólitísk. Vel er samt hægt að fjalla um slíkt (þ.e. viðbrögðin við veirunni) á jákvæðan hátt, en jákvæðir virðast flestir vilja vera.

Sú krafa allra eða a.m.k. flestra um að vera jákvæður umfram allt er samt dálítið vafasöm. Vel er hægt að vera neikvæður á jákvæðan hátt eða svoleiðis. Það vil ég umfram allt vera. Neikvæðnin verður samt jákvæðninni stundum yfirsterkari og ekkert er við því að gera. Framfarir verða engar ef ekki er bent á vitleysurnar.

Eitt af því sem við bloggarar verðum að gera okkur grein fyrir er að „attention span“ fólks fer sífellt minnkandi. Þessvegana er um að gera að hafa bloggin sem styst. Þetta er auðvelt að gera ef fjallað er um pólitík. Langhundar þar eru leiðinlegir.

IMG 4983Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband