2997 - Tvær sögur

Nú er ég orðinn svo ruglaður í ríminu að ég verð sennilega að hafa tvær sögur í þessu bloggi. Hélt nefnilega endilega að ég hefði verið búinn að setja upp söguna um ugluna og nunnuna en svo virðist ekki vera. Ekki þurfti nú mikið til að ég ruglaðist algerlega. Ég virðist vera alvarlega dottinn í þessa sögugerð þó þær séu óttalega vitlausar. Einhvern vegin verð ég að losna við þessar sögunefnur. Annars þarf ég að halda áfram að hugsa um þær og það er satt að segja ekki þægileg tilhugsun. Með þessu móti á ég líka auðveldara með að blogga dálítið ört, jafnvel daglega.

Þá eru það sögurnar:

Sú fyrri fjallar um byssusmiðinn og nunnuna.

Einu sinni bjuggu í ofurlitlu rjóðri í skóginum gamall fyrrum byssusmiður og fyrrverandi nunna. Þetta með nunnuna var dálítið sögulegt, því hún hafði verið rekin úr nunnuklaustrinu sem hún var í vegna þess að hún hélt við manninn sem kom vikulega og sótti óhreina þvottinn til þeirra og skilaði að sjálfsögðu þeim hreina í sömu ferðinni. Þessi blessaða nunna hafði aldrei verið við karlmann kennd þegar þessi  maður kom í fyrsta skipti til að sækja óhreina þvottinn til þeirra í nunnuklaustrinu. Mannauminginn ætlaði að vera voðalega fyndinn og sagði þegar hann kom:

„Ég er víst kominn til að sækja nærbuxurnar ykkar“. Nunnan okkar sem við skulum kalla Guðrúnu flýtti sér þá úr nærbuxunum sínum og fékk honum þær. Þetta var upphafið af nánum kynnum þeirra sem við skulum ekkert fara nánar útí.

Byssusmiðurinn hét náttúrulega Smith og Guðrún og hann komu sér nú saman um að kominn væri tími til þess að byggja við litla húsið í skógarrjóðrinu. Þau báðu þess vegna ugluna, sem var gáfaðasta dýrið í skóginum að fara á stúfana og reyna að útvega sér mótatimbur og sement. Í lækjafarvegi sem var í nágrenninu töldu þau sig geta fegið sér nóg af möl og sandi.

Uglan flaug samstundis af stað og sagðist ætla að reyna þetta. Hún kom fljótlega til baka með helling af mótatimbri í gogginum, en sementið var í pokaskjatta sem hún dró á eftir sér.

Gömlu hjónin, sem voru eiginlega ekkert sérstaklega gömul, fóru nú að hræra steypuna og slá upp fyrir veggjunum. Fyrr en varði var komin myndarleg viðbygging. Það sem áður hafð verið lítið hús með tveimur litlum herbergjum var nú orðið hið eigulegasta hundrað fermetra einbýlishús. Uglan taldi að hún ætti rétt á því að búa með þeim, því að hún hafði útvegað mótatimbrið og sementið. Þau Smith og Guðrún vildu ekki heyra á það minnst og sögðust ekki vilja gera húsið sitt að einhverjum fuglakofa. Uglan fór þá í fýlu og fór og talaði við hrafnana og sagði þeim alla sólarsöguna.

Þeir fóru til mávanna og fleiri fugla og saman gerðu þeir aðsúg að gömlu hjónunum, sem voru ekkert sérstaklega gjömul. Þau neyddust þá til að flýja úr húsinu sínu fína og þannig stendur á því að húsið er enn þann dagi í dag í rjóðrinu við árbakkann.

Seinni sagan fjallar um Pétur flugkappa:

Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu. Þau áttu sér kálf. Þá er sagan hálf. Hann hljóp út um víðan völl. Nei, annars. þetta er ekkert fyndið. Einu sinni hélt maður að allar sögur byrjuðu svona.

Satt að segja langaði Pétur ekkert til að fara í flugvélina. Pabbi hans hafði samt sagt honum að það væri voða skemmtilegt. Að fara svona einsamall til útlanda var ekki vitund gaman. Hvað ef flugvélin hrapaði nú og hann týndi lífinu. Ekki væri það nú skemmtilegt. Auðvitað væri gaman að vera sá eini sem kæmist lifs af. Hann var alveg sannfærður um að hann kæmist lifandi úr flakinu ef flugvélin færist. Pétur var alveg ákveðinn í því að láta flugvélina farast. Hann var svosem ekki alveg búinn að ákveða hvernig hann færi að því, en það var eiginlega aðalástæðan fyrir því að hann lét sig hafa það að fara upp í flugvélina. Hann var alveg búinn að ákveða að hún færist á leiðinni. Annað mundi valda honum sárum vonbrigðum. Pétur fékk svolítið „trukk undir taglið“ þegar flugvélin fór á loft. Honum fannst samt ekkert mikið til hraðans koma enda var ekki um neinn samanburð að ræða. Á loft fór flugvélin samt eins og ekkert væri og nú tók við svokölluð „flugfreyjusýning“ þar sem auk flugfreyjanna voru sýnd allskonar neyðarapparöt fyrir þá sem leiddist að horfa á flugfreyjurnar í áttugasta og þriðja sinn.

Hvernig sem á því stóð þróskaðist flugvélin við að bila. Pétur var samt búinn að ákveða að það mundi gerast fljótlega eftir flugtak. Hann sætti sig samt alveg við að fresta því svolítið enda fóru freyjurnar og þjónarnir fljótlega að færa farþegunum matarbakka. „Kannski maður bíði svolítið með að láta flugvélina bila“, hugsaði Pétur. Þegar búið var að safna bökkunum saman aftur ákvað hann að ekki væri eftir neinu að bíða lengur. En það var sama hvað hann rembdist við, ekki bilaði flugvélarskömmin. Að lokum ákvað hann að grípa til örþrifaráða. Hann kallaði á aðstoð með þartilgerðum hnappi og þegar flugfreyjan kom rétti hann úr einum putta í vasanum á jakkanum sínum og sagðist vera með byssu og að hún yrði að fara með hann til flugstjórans því hann þyrfti að tala svolítið við hann. Freyjuræfillinn þorði ekki annað en hlýða Pétri og hélt með hann á eftir sér fram í vélina. Þegar í flugstjórnarklefann kom sagði hann flugstjóranum að láta flugvélina hrapa núna samstundis, annars mundi hann skjóta úr byssunni sem hann þóttist vera með og miðaði á flugstjórann. Flugstjórinn hló bara og sló létt á ímyndað byssuhlaupið, sem við það bognaði og réttist samstundis við aftur. Enginn kom hvellurinn svo flugstjórinn stóð upp og sló Pétur á kjammann. Við þessa óvæntu árás hrataði hann aftur á bak og datt endilangur á bakið. Þannig lauk fyrstu tilraun Péturs til flugráns og endum við frásögnina því hér með.

IMG 5543Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mörg er hér nú sagan sögð,
af Sæmundar nágrönnum,
öll hans sveit er undirlögð,
af ótrúlegum mönnum.

Þorsteinn Briem, 1.9.2020 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband