2655 - Bóluefni

Er einhver sérstök ástæða til að bjarga Flugleiðum? Mér finnst það ekki. Að vandræði þeirra séu flugfreyjum að kenna eða flugmönnum er fjarstæðukennt í meira lagi. Fyrirtækið er sennilega bara illa rekið. Öll flugfélög í heiminum eiga í miklum vandræðum um þessar mundir. Áðan sá ég þotustrik á himninum, en þau eru jafnsjaldséð núorðið og sumir fuglar. Að Flugleiðir, eða Icelandair eins og þeir kjósa víst að láta kalla sig, geti e.t.v. bjargað þeim sem látið hafa peninga sína í hótelbyggingar að undanförnu er vonarpeningur í besta falli.

Þær þrengingar sem kunna að vera í vændum fyrir okkur Íslendinga kunna að vera miklar og margvíslegar. En hvort sem þær verða af efnahagslegum toga eða öðrum er ekki um annað að ræða en að standa saman þar til þær eru að mestu yfirstaðnar. Pólitískar hræringar kunna að verða miklar og engin leið er að spá neinu um hvernig þær verða. En hvernig sem allt veltist og snýst munum við komast út úr þessum þrengingum og takast á við framtíðina.

Engir svelta á Íslandi (skilst mér) og alltaf er hægt að fara uppávið með kröfurnar og á margan hátt höfum við það bara fjandi gott hérna. Jafnvel í Bandaríkjunum, sem margir álíta himnaríki á jörð, er faraldursaðstoð við almenning meiri en samskonar aðstoð við fyrirtæki. Að flestu leyti höfum við Íslendingar farið ótrúlega vel útúr þeim hremmingum sem Covid-19 hefur valdið í veröldinni. Ef bóluefni finnst fljótlega, og við höfum efni á að kaupa það, gætum við vel flotið ofaná.

Framtíðin verður ef til vill talsvert öðruvísi en við gerðum ráð fyrir, en við þvi er ekkert að gera. Hvernig hún verður, að loknum þessum veirufaraldri er ekki nokkur leið að vita. Við sem elst erum munum hverfa héðan áður en mjög langt um líður. Þegar við vorum að alast upp um miðja síðustu öld var tuttugasta og fyrsta öldin langt í fjarska og mörg okkar gerðum ráð fyrir að hún yrði með öllu áhyggjulaus og vissulega er hún það, ef miðað er við þau gildi sem þá var notast við.

IMG 5931Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband