2936 - Lady Baden-Powell

2936 – Lady Baden-Powell

Fylgist nokkuð vel með vinsælasta sjónvarpsþættinum um þessar mundir. Líka því að þó Þórólfur og Alma fái einstöku sinnum frí, er því ekki að heilsa með Víði. Hann fær aldrei frí og satt að segja er maður farinn að vorkenna honum svolítið. Hann æsir sig líka stöku sinnum uppúr öllu valdi og reiður Víðir er ekki árennilegur.

Það er nú alveg ljóst að hvað ferðamenn snertir er komandi sumar alveg ónýtt. Einhverjir túristar munu sjálfsagt rekast hingað, en ekkert verður það í líkingu við það sem til þarf svo fyrirtækin öll sem sérhæft hafa sig í allskonar þjónusu við þá, geti starfað áfram. En hvað er að segja um næsta sumar? Sumarið 2021.

Ég er talsvert hræddur um að svipaða sögu verði að segja af því. Ferðmannaiðnaðurinn sem svo hefur verið nefndur nær sér áreiðanlega ekki á strik aftur fyrr en búið verður að finna upp og prófa fyllilega bóluefni gegn Covid-19 veirunni. Jafnvel þó bóluefni verði hægt að fá næsta sumar eða svo er afar ólíklegt að það nái að bjarga túrismasnum hér á Íslandi.

Til þess þarf að vera búið að ná fullkomnu hjarðónæmi hér á landi eða þá að allir ferðamenn sem hingað koma hafi verið bólusettir. Hvorugt er líklegt. Þessvegna er afar ólíklegt að ferðamanniðnaðurinn nái fyrri styrk fyrr en í fyrsta lagi árið 2022. Vissulega er þetta svartsýni, en mönnum er velkomið að vonast eftir öflugu bóluefni miklu fyrr en hér er gert ráð fyrir.

Man vel eftir Ólafi Ólafssyni kristiboða. Að hann væri afi Egils Helgasonar vissi ég ekki. Hann var fyrstur til að sýna mér hvernig Kíverjar væru vanir að heilsast. Þeir tækju í hendina á sjálfum sér og hneigðu sig svolítið um leið. Það var svo ekki fyrr en all-löngu seinna sem ég heyrði brandarann um það hvernig Kínverjar skeindu sig og hvaða áhrif liklegt væri að það hefði á pappírsframleiðslu heimsins ef þeir tækju uppá því að nota klósettpappír.

Man líka vel eftir Hannesi Jóhannssyni sem var tæknistjóri á Stöð 2. Hann var fæddur í Hong Kong vegna þess að sjúkrahúsin þar voru nauðalík þeim vestrænu. Foreldrar hans voru á þeim tíma starfandi í Kína. Ýmsar minnisstæðar sögur gæti ég sagt eftir honum, en sleppi því að þessu sinni.

Sumir hafi haldið því fram að handabönd leggist alveg af hér á landi. Það held ég ekki að verði. Líklegt er samt að þau verði ekki alveg jafn sjálfsögð á næstunni eins og þau hafa löngum verið.

Eitt af allra fyrstu skátamótum sem ég sótti var haldið í Hagavík við Þingvallavatn. Þar átti Helgi Tómasson geðlæknir og faðir Ragnhildar Helgdóttur síðar menntamálaráðherra sumarbústað og e.t.v. fleira. Man eftir því að kennarar við Laugargerðisskóla höfðu það í flimtingum, þegar ég var þar prófdómari, að einhverntíma gæti sá tími komið að Ragnhildur yrði menntamálaráðherra, og hlógu ógeðslega um leið.

Man að á þessu skátamóti, sem ég minntist áðan á, kom eiginkona Roberts Baden-Powells stofnanda skátahreyfingarinnar í heimsókn og við skátarnir sem vorum á mótinu mynduðum langa röð til þess að fá að taka í hendina á henni. Ég hef semsagt tekið í hendina á Lady Baden Powell og man vel að mér þótti það talsvert merkilegt á þeim tíma.

Hélt endilega að mér mundi líða miklu betur ef ég fengi að vita hvað Bolungarvíkursvindlarinn heitir. Svo var þó ekki.

Einhver mynd.IMG 6199


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég er ekki viss um að það sé ástæða til að vera svona svartsýnn. Nú er vírusinn að ná hápunkti meira og minna um alla Evrópu. Verði samkomu- og samskiptabönn numin úr gildi munu Íslendingar geta þvælst um allt innanlands. Þegar t.d. Þjóðverjar, Ítalir og Frakkar hafa náð svipuðum tökum á útbreiðslunni og Íslendingar er í sjálfu sér ekkert meiri hætta á að íbúi í Mývatnssveitinni smitist af Þjóðverja en af Íslendingi sem er þar á ferð. Ég geri ráð fyrir að ferðatakmörkunum verði aflétt tiltölulega fljótt milli svæða þar sem tökum hefur verið náð á útbreiðslunni, en þær verði lengur gagnvart svæðum þar sem faraldurinn er enn á ferð og flugi.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.4.2020 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband