12.1.2020 | 17:02
2905 - Handbolti og dvergakast
Ekki veit ég hvernig á því stendur, en lestur þessa bloggs hefur aukist svolitið að undanförnu. Kannski er það ótíðin sem þessu veldur. Kannski eitthvað alltannað. Við síðasta blogg mitt komu heilar 7 athugasemdir. Auðvitað skrifaði ég flestar þeirra sjálfur, en það er alveg sama. Þetta er óvenju mikið. Það eru ekki bara athugasemdirnar sem ég tel vandlega heldur fæ ég líka upplýsingar frá Moggabloggsteljaranum um fjölda þeirra sem heimsækja bloggið mitt á hverjum degi. Útbær á þær upplýsingar er ég sjaldan núorðið, en var það einu sinni. Við skulum minnast þess að hvernig við högum okkur á Netinu er alltsaman grandskoðað og skilgreint af snjalltölvum og hægt væri að fá, með mikilli fyrirhöfn þó fyrir mig a.m.k., upplýsingar um tölvur, sem notaðar hafa verið og nákvæmar tímasetningar. Nenni ekki að fást við slíkt. Get þó upplýst að undanfarna daga hafa heimsóknir verið á þriðja hundrað á dag og telst það fremur mikið á minni íhalds- og úreltu síðu.
Vinsælast er stjórnmálaþras. Segja má það sama um fyrirsagnir, ef þær eru nógu krassandi og forvitnilegar, má búast við einhverjum forvitnisheimsóknum. Það er samt ekki mitt að dæma eða sálgreina þá sem mín skrif lesa. Sumir gera það eflaust vegna skorts á einhverju skárra, sumir af einhverri annarri ástæðu. Sumum líkar kannski bara vel við það sem ég skrifa. Ég hef komist uppá lag með að lesa einkum fyrirsagnir Bandarískra blaða og þó þau séu hliðholl lýðræði, í orði kveðnu, fer ekki hjá því að skoðunin Amríku allt á mikinn hljómgrunn þar, auk þess sem auglýsingum er í sífellu grautað samanvið fréttir þar og peningar virðist ráða flestu.
Vinstrisinnar hafa hátt um þessar mundir og Pressan næstum öll. Auðvitað er Trump óvinsæll allstaðar nema í Bandaríkjunum. Fjölmiðlar virðast næstum allir vera á móti honum og er það engin furða. Bandaríkjamenn hafa í krafti stærðar sinnar og auðs lengi verið nokkurskonar lögregla heimsins. Trump hagar sér allsekki eins og lögreglustjórar eiga að gera og verður að fara varlega því Kínverjar vilja ólmir taka að sér lögreglustörf, svo ekki sé minnst á Pútín. Gott ef Trump dregur ekki taum þeirra sem kusu hann. Hugsanlegt er meira að segja að þeir geri það aftur á þessu ári. Einu sinni skutu Bandaríkjamenn sjálfir óvart niður farþegaþotu. Ekki man ég glögglega hvaða afleiðingar það hafði, en Írönsk stjórnvöld munu eflaust gjalda þess að hafa skotið niður Ukrainsku flugvélina. Lifi lýðræðið.
Þó margt sé í skötulíki hér á Íslandi er því ekki að neita að margt er okkur hagstætt hvað varðar staðsetningu okkar á jarðarkringlunni. Þeim fækkar óðum sem sætta sig við það ófullkomna stjórnarfar sem hér ríkir, vegna þess m.a. að sífellt fleiri kynnast því hvernig kaupin gerast á eyrinni í þeim vestrænu löndum sem við berum okkur sífellt saman við. Þó landslið okkar í handbolta hafi unnið samskonar lið frá Danmörku skulum við ekki ofmentast. E.t.v. er handbolti vinsælli íþróttagrein á heimsvísu en t.d. dvergakast. Sagt hefur t.d. verið að Evrópumeistaramót í handbolta séu mun sterkari en heimsmeistarmót í sömu íþróttagrein. Þetta minnir mig á heimsmeistaramót íslenska hestsins, en ekki hyggst ég fara lengra út í þá sálma nú.
Athugasemdir
Ég er reyndar ekki viss um að á heimsvísu sé handbolti neitt vinsælli en dvergakast. Þótt ég sé nú ekki mikill íþróttaaðdáandi hef ég gaman af að horfa stöku sinnum á góðan fótbolta. En handbolta nenni ég aldrei að horfa á, það er svo leiðinlegt. Væri boðið upp á dvergakast á RÚV (sem er eina sjónvarpsstöðin sem ég horfi á) myndi ég alveg örugglega setjast niður með popp og kók og horfa á það af mikilli athygli.
Þorsteinn Siglaugsson, 12.1.2020 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.