2903 - Er fólk fífl?

Hvað er varið í að verða gamall og þurfa sífellt að óttast hjartasjúkdóma, sykursýki og krabbamein? Öll deyjum við einhverntíma. Samt heldur maður áfram að lifa, hneykslast á stjórnvöldum og hrósa happi yfir því að hafa ekki fæðst inní þriðja heiminn. Sú allra helsta breyting sem orðið hefur á síðustu árum er sú að núorðið erum við meira og meira háð tækninni. Ástin á snjalla farsímanum verður sífellt augljósari. Samskipti fólks færast að mestu leyti yfir í farsímann og mjög tíðkast að kenna honum um allt sem miður fer. Ekki er hægt að segja að það sé að öllu leyti sanngjarnt, en einhverju verður að kenna um. Eigin ófullkomleiki er ekki í boði, eins og sagt er.

Markverðasta heimspekilega spurningin er þessi: Er fólk fífl? Það er erfitt nútildags að vera frumlegur án þess að hljóma eins og biluð plata. Ekki er samt búið að segja allt. Gera þarf greinarmun á því að skrifa bara til að skemmta, eða til þess að fá fólk til þess að hugsa. Þeir sem snjallasir eru í þessu, jafvel snjallari en snjallsímarnir, geta þó með árangri blandað þessu tvennu saman. Því miður er ég ekki í þessum hópi. Þó ég hafi skrifað mikið um dagana er ég sífellt að hugsa og skrifa hægar og hægar. Á endanum hætti ég sjálfsagt alveg að skrifa. Þar að auki er ritað mál á sífelldu undanhaldi. Myndir og videó eru sífellt að vinna á. Alveg er það liðin tíð að fréttir séu t.d. skrifaðar án þess að mynd fylgi. Stundum eru gamlar myndir dregnar fram, en þá má helst ekki vera búið að birta þær áður.

Minnir að ég hafi í síðasta bloggi talið að ekki yrði úr stríði milli Íran og U.S.A. Þetta virðist ætla að ganga eftir. Tveir spádómar mínir eru tengdir Bandaríkjunum. Ég reikna ekki með að samþykkt verði í Bandarísku Öldungadeildinni að svipta Trump forsetaembættinu. Þetta er samhljóða áliti flestra sem um þetta mál fjalla. Hætt er samt við að atkvæði falli að mestu leyti eftir flokkslínum. Hinn spádómurinn er um að Trump tapi í kosningunum sem verða í nóvember næstkomandi. Andstaða við þennan spádóm er mikil hjá mörgum. Að sumu leyti kann þetta að vera einskonar óskhyggja, en ég vil nefnilega miklu fremur styðja demókrata þar en repúblikana. Stjórnmá í U.S.A. og heimspólitík eru nefnilega mitt áhugamál þessa stundina.

Á sínum tíma spáði ég því að Klausturhávaðinn mundi ekki hafa mikil eftirköst fyrir þá sem tóku þátt í honum. Þetta hefur greinlega gegnið eftir. Innlend stjórnmál eru heldur þýðingarlítil á alþjóðlegan mælikvarða. Líklegt er að Katrínarstjórnin lifi af kjörtímabílið,  hvort sem kosið verður næst um haustið 2021 eða á vormánuðum sama árs. Lengur getur þessi verklitla ríkisstjórn varla setið.

Þegar ég var að alast upp hræddust börn kjarnorkusprengjuna. Nú er reynt að hræða börn með loftslagsvánni. Samt er hún raunveruleg. Þó er ekki víst að spádómar þeirra sem sífellt eru með vísindasamfélagið á vörunum hafi rétt fyrir sér í öllum atriðum. Lífið snýst um að taka ákvarðanir. Sumar þeirra eru réttar, aðrar ekki. Ég man t.d. vel eftir því að þrátt fyrir öll óþægindi sem því fylgdu var nauðsynlegt einu sinni að venja sig á að reykja. Öðruvísi var maður ekki maður með mönnum. Ákvarðanir hafa alltaf afleiðingar. Hvort við hendum plastinu frá okkur eða látum það í réttan gám kann að hafa afleiðingar einhverntíma í framtíðinni. Ekki er samt víst að allir taki réttar ákvarðanir í öllum tilfellum. Nauðsynlegt er að taka rangar ákvarðanir öðru hvoru.

IMG 6445Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband