2887 - Heimsmálin

Vel er hugsanlegt að Brexit samningurinn verði samþykktur í brezka þinginu á morgun (laugardag). Allir eru fyrir löngu orðnir hundleiðir að þess máli. Ekki síst þingmenn á brezka þinginu. Sennilega er þarna um að ræða að mestu leyti þann samning sem Theresa May var búin að gera á sínum tíma. Helsti ásteitingarsteinninn þar sneri að landamærunum milli Norður-Írlands og Írlands. Meðan bæði Írland og Brezka konungsveldið, (sem saman stendur af ríkjunum Englandi, Wales, Skotlandi og Norður-Írlandi) voru bæði í ESB var auðvitað ekki um neitt vandamál að ræða. Írar sætta sig allsekki við að þar verði landamæravarsla með hefðbundnu sniði eftir Brexit, svo líklegast er að það vandamál verði sett í salt og ráðið framúr því einhverntíma seinna, en það vildi May allsekki heyra nefnt meðan hún var við völd.

Ástandið fyrir botni Miðjarðahafs (eins og einu sinni var sagt) er allsekki gott frekar en fyrri daginn. Að sumu leyti er skiljanlegt að Tyrkir hafi viljað ráðast á Kúrda og ekki í sjálfu sér mikið við því að segja. Það eru afskipti Vesturveldanna sem hafa í áranna rás komið þessu ástandi á að mestu leyti. Þjóðirnar þarna voru afskaplega friðelskandi þangað til farið var að skipta sér af þeim. Olían sem þar er í jörðu hefur leitt til þeirrar bölvunar sem mörgum finnst hvíla á þessu svæði. Afskipti Vesturveldanna og Sameinuðu Þjóðanna hafa hleypt öllu í bál og brand á þessum slóðum.

Athyglisverð er sú kenning Mitts Romney öldungardeildarþingmanns repúblikana og fyrrverandi forsetaframbjóðanda og fleiri að forseti Tyrklands hafi einfaldlega hótað Trump því að hann mundi ráðast á Kúrda þrátt fyrir stuðning Bandaríkjamanna við þá og að Trump hafi þrátt fyrir öll mannalætin lyppast niður og gert eins og honum var sagt. Tyrkir fengu að minnsta kost viku til þess að gera það sem þeir vildu helst.

Heimsstjórnmál eru á margan hátt eitt af mínum helstu áhugamálum og þau stjórnmál sem stunduð eru í litlum þjóðríkjum eins og Íslendi blikna óneitanlega í samanburðinum. Verst finnst mér hvað ég er í rauninni illa að mér um þau mál sem hafa sem mest áhrif á það sem gerist í heiminum í dag. Þekking mín á stjórnmálum annarsstaðar en í Bandaríkjum Norður-Ameríku er afskaplega brotakennd. Þetta á maður sem allt þykjist vita og skrifar oft um heimsstjórnmál auðvitað alls ekki að láta sér um munn fara. Þrátt fyrir allt held ég samt að ég sé ekkert verri en aðrir í þessu efni. Sennilega mun betri ef eitthvað er.

Ekki er með góðu móti hægt að hafa áhuga á heimsmálum án þess að velta mikið fyrir sér hvernig Kínaveldi muni þróast á næstu áratugum. Að þeim skuli hafa tekist að hafa jafnmikinn hagvöxt undanfarið og raun ber vitni, án þess að veita þegnum sínum nokkurt pólitískt frelsi er ekkert minna en stórfurðulegt. Hingað til hefur ekki náðst neinn umtalsverður hagvöxtur án slíks frelsis. Skemmst er að minnast hinna skelfilegu mistaka sem gerð voru í Sovétríkjunum sálugu.

IMG 6544Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband