17.6.2019 | 15:49
2858 - Heimsfriðurinn
Íslendingar eru Norðurlandameistar í bridds. Einu sinni voru Íslendingar nokkuð góðir í skák líka. Sama er að segja um boltaíþróttir eins og handboltann. Ef við Íslendingar einbeitum okkur að örfáum eða a.m.k. ekki of mörgum hlutum í einu, getur við alveg náð þokkalegum árangri miðað við fólksfjölda. Um leið og áhuginn eykst um allan heim getum við pakkað saman. Það sem við getum einkum státað okkur af er að þrátt fyrir fámennið hefur okkur tekist að halda uppi ríki sem getur borið sig saman við fjölmörg önnur, ef tillit er tekið til fámennisins. Einhvers staðar sá ég því haldið fram nýlega að við stæðum öðrum þjóðum að baki í Olympíugreinum íþrótta. Ég held að þetta sé mesta vitleysa. Þó við höfum aldrei unnið til gullverðlauna á Olympíuleikum höfum við síður en svo verið okkur til einhverrar skammar þar. Og landsliðið okkar í knattspyrnu hefur undanfarið staðið sig með prýði. Auðvitað lýkur þessum árangri einhvertíma, en er á meðan er.
Hvað loftlagsvá varðar, sem ég trúi ekki að öllu leyti á, erum við á Íslandi betur sett en flestir aðrir. Ég held að sumt af því sem haldið er fram af vísindamönnum um loftslagsmál sé óttaleg vitleysa. Sú heimshlýnun og það hallæri sem boðað er af hennar völdum held ég að sé að verulegu leyti byggt á ágiskunum. T.d. er ég viss um að þessi skurðaofanímokun hér á landi er stórlega ofmetin. Annað mál er það að ruslasöfnun sú sem um þessar mundir er stunduð á Vesturlöndum er alltof mikil. Að ráðast á sóun af öllu tagi er vissulega hið besta mál. Þó frárennslismál og hreinlæti geti verið dýrt, segir mér svo hugur um að við Íslendingar getum bætt okkur mikið þar. Í þeim efnum stöndum við nágrönnum okkar langt að baki.
Eiginlega eru bloggskrif af þessu tagi sem ég hef vanið mig á, marklaus að mestu. Ef að því er keppt að sem flestir lesi þessi ósköp væri sennilega best að setja þetta á fésbókina. Ég er bara svo mikið á móti henni þó ég geti alveg fallist á yfirburði hennar að þessu leyti. Kannski vil ég ekki að sem flestir lesi þetta og kannski er mér alveg sama. Afskiptaleysi Morgunblaðsins af því sem hér er skrifað hentar mér að mörgu leyti ágætlega. Afskiptasemin og nýjungagirnin hjá fésbókinni fer mest í taugarnar á mér. Með því móti er kannski hægt að fá fleiri til að skrifa, en mér finnst bara stór hluti af því sem skrifað er á fésbókina vera argasta bull.
Í dag er víst 17. Júní. Þ.e.a.s. þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Ekki hef ég hugsað mér að halda að neinu leyti uppá daginn. Er ég þá minni Íslendingur en þeir sem það gera? Ekki finnst mér það. Eiginlega finnst mér þetta þjóðhátíðarstand vera mest fyrir börn. Auðvitað er það ekkert verra fyrir það. Mér finnst bara útúr korti að meira eða minna leyti fyrir okkur gamlingjana að vera að sperra okkur af þessu tilefni.
Ekki fer hjá því að einhverjir (fjölmiðlamenn) álíti það hættulegra fyrir heimsfriðinn að kveikt sé í fáeinum olíuflutningaskipum en að þúsundir manna séu drepnar. Útskýri þetta ekki nánar enda veit ég svosem ekkert hvað ég á við með þessu. Mið-Austurlönd hafa lengi verið álitin sú púðurtunna sem hæglegast gæti komið heimsófriði af stað. Stórveldin hafa öll einhverja hagsmuni að olíu og þessvegna er heimsfriðnum kannski meiri hætta búin nú en oft áður. Samt er það svo að eftir því sem heimsstyrjöldin síðari fjarlægist meira því hættara virðist þessum svokallaða friði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.