2789 - Lífsreglur

Til að láta ekki hanka sig á neinu er yfirleitt best að segja sem fæst. Þessu hef ég reynt að fara eftir. Fyrir vikið er ég að sumum álitinn supergáfaður, öðrum samt ekki. Þeir sem segja fátt eru af sumum álitnir svona gáfaðir. Rétt er kannski, að þeir segja færri vitleysur en aðrir. Annað læt ég liggja á milli hluta. Þetta má líka orða þannig: Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Ef ég bloggaði ekki og segði aldrei neitt, ja þá væri ég sennilega gáfaðri en ég þó er. Þetta átti að vera illskiljanlegt og er það kannski.

Hlaupandi úr einu í annað
það er lífsins saga.
Ekkert er lengur bannað
þetta er eins og baga,
sem þyrfti svolítið að laga.
(Er þetta kannski fimmskeytla?)

Ætlast er til þess að maður (bloggandi maður) hafi skoðun á öllum fjandanum, eins og maður sé einhver Trump. Langbest er að hafa ekki nokkra skoðun, en það er erfitt. Maður kemur sér kannski upp frumlegri skoðun með ærnum heilabrotum, sem svo reynist bara tóm vitleysa. Hvað á þá að gera? Ein leiðin er að skipta um skoðun. Það gera samt engir ótilneyddir.

Í anda rithöfundarins mikla, Þórbergs Þórðarsonar er ég að hugsa um að koma mér upp fáeinum, nánar tiltekið þremur, lífsreglum. Þær eru:

Í fyrsta lagi: Kaffi er ógeðsdrykkur.
Í öðru lagi: Mjólk er bara fyrir börn. Aðrir drykkir eru betri. Blávatn þó best.
Í þriðja lagi: Tæknin er að drepa mennskuna.

Í næstu bloggum mun ég reyna að útskýra þetta betur. Verst er að hingað til hef ég alls ekki farið eftir þessu. Aðalvandamálið er að finna heppilegan tíma til að láta þetta koma til framkvæmda. Sumir kynnu að segja að það væri seint í rassinn gripið að komast að þessu á sjötugasta og sjöunda aldursári, en betra er seint en aldrei, eins og segir í einhverju spekiriti.

Í fyrsta lagi: Allt er þríeint. Þannig er það bara og því verður ekki breytt.
Í öðru lagi: Allt er sannleikur í trúmálum.
Í þriðja lagi: Guð er dauður.

Aðrir hafa komist að þessu á undan mér og þessvegna er það ekki vitund frumlegt. Í lífsreglunum hef ég forðast að taka afstöðu í heimsmálum og pólitík almennt, því þar vil ég geta hagað seglum eftir vindi. Auðvitað er allt þríeint þar eins og annarsstaðar. Þessvegna er það ágætt að geta farið eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni.

Í fyrsta lagi: Loftslagsmál fjalla um veru mannkynsins á Jörðinni.
Í öðru lagi: Mannréttindi, þar með talinn Feminismi, um næstum allt hitt.
Í þriðja lagi: Og læknavísindi um heilbrigði.

Læt ég svo þessu rugli lokið að sinni.

IMG 7614Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband