2662 - Stjórnarmyndun o.fl.

Á mbl.is eða einhverju blaði las ég eitthvað um neflokk. Auðvitað las ég það fyrst sem nef-flokk. Sennilega er maður svona stjórnmálaflokks-stilltur útaf núverandi stjórnarmyndunarviðræðum. Sniðugt hjá þeim sem að þessu stóðu að láta þær fara fram uppi í sveit. Í byrjun a.m.k. Nú hefur stólaleikurinn staðið nokkuð lengi og mörgum finnst að Framsóknarforinginn hafi ekki sýnt sérstök heilindi. Ekki get ég sagt að ég sé yfir mig spenntur yfir því hver talar við hvern af stjórnmálaforingjunum. Kannski tekur nokkrar vikur að komast að niðurstöðu. Held að hún skipti í reynd fremur litlu máli. Auðséð er að leyndarhyggju- landbúnaðar- sjávarútvegs- og íhaldsflokkarnir halda sínu.

Hvernig kemst ég hjá því að minnast á sjálfan mig eða fjölskylduna í þessum álnarlöngu eða afar löngu bloggskrifum mínum? Einfalt mál. Bara að tala eða skrifa um einskisverð málefni eða mál sem maður hefur ekkert vit á. Einsog t.d. heimsmálin. Sumir skribentar þykjast vita allt. Gúgli karlinn veit þó ansi margt. Um að gera að spyrja hann, ef maður er í vafa. Svo er líka ansi gaman að láta mata sig á allskyns vitleysu einsog ég fíla svo vel. Altsvo að mata aðra, ekki hitt. Um að gera að reyna að láta lesandann halda að hann sé mun gáfaðri, en maður sjálfur.

Sumir sagnfræðingar virðast vita næstum allt. Nefni engin nöfn, það er hættulegt. Er með tvo eða tvö í huga og hef nefnt nöfnin þeirra í gömlum bloggum. Nú fara allir að lesa gömlu bloggin mín. Nei annars, ég er ekki svona innbilskur og veit vel að engir nema ég sjálfur lesa gömul blogg eftir mig. Annars er það mesta furða hvað þeir, sem einbeita sér að því, komast yfir að lesa mikið. Eftir því sem aldurinn færist yfir mig les ég minna og minna, en skrifa þeim mun meira. Einu sinni lagði ég áherslu á að skrifa daglega. Reyndar er ég steinhættur því.

Um daginn þegar ég fór í morgungönguna mína óð tunglið í skýjum. Þá datt mér náttúrlega í hug þessi vísa:

Týnd er æra, töpuð sál.
Tungl veður í skýjum.
Sunnefunnar sýpur skál
sýslumaður Wium.

Kannski er þetta eitthvað vitlaust munað hjá mér, en það gerir ekkert til. Mér finnst (þrátt fyrir augljós gæði vísunnar) að önnur ljóðlínan sé ágætt dæmi um hortitt. Það kemur í sjálfu sér ekkert málinu við hvort tunglið hafi vaðið í skýjum. Það minnir samt á rok og myrkur og þannig var einmitt ástatt á þessari morgungöngu minni.

IMG 0661Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband