2657 - Enn um stjórnmál og kosningar (en ekki hvað?)

Sennilega er þetta Weinstein-mál mikilvægara en margir héldu. Ég hafði t.d. ekki frétt neitt af völdum hans og áhrifum, enda er ég enginn sérstakur Hollywood aðdáandi. Af hverju risu engir upp þegar Trump var í raun og veru afhjúpaður sem nokkurskonar Weinstein? Kannski Weinstein sé Demókrati og hægt sé að kenna Trump um þetta eins og flest annað sem miður fer.

Sennilega er ég um það bil að ná því að verða orðlagður „gamalmennabloggari“ Það virðist vera sama hvaða vitleysu ég set hingað inn, lesendur skipta hundruðum. Ekki get ég að þessu gert, en með þessu móti get ég líklega sannfært marga um að ég er ekki alveg að verða „alshæmernum“ að bráð eins og sumir sem aldraðir eru. Samt er það svo að kosningar þær sem yfirvofandi eru heilla mig ekkert sérstaklega. Lögbönn og annar æsingur skiptir þar engu máli.

Ríkisstjórn sú sem nú er á síðasta snúningi gerði mér svosem ekkert, en hún hefði að sjálfsögðu getað verið ýmsum hagstæðari. Eiginlega er mér svosem sama hvort stjórn sú sem tekur bráðlega við (vonandi) verður til hægri eða vinstri. Sennilega kýs ég samt frekar til vinstri. Jafvel píratana eins og ég hef gert að undanförnu.

Mér virðist að tap Sjálfstæðisflokksins verði allmikið að þessu sinni og VG verði talsvert stærri en hann að loknum boðuðum kosningum. A.m.k. virðist sú vera þróunin í skoðanakönnunum, sem oft er talsvert að marka. Samfylkingin er einnig á talsverðri siglingu.

Fyrir mér skiptir mestu máli hver þróunin í stjórnmálum til tiltölulega langs tíma er. Auðvitað eru þeim tímar sem við lifum á mikið breyttir frá því sem var þegar ég var upp mitt besta. Mér finnst hægri stefnan snúast mest um að nálgast Bandaríkin sem mest. Vinstri stefna hér á landi finnst mér hins vegar stefna í sömu eða svipaða átt og Norðurlöndin og Evrópa yfirleitt stefnir meira í. Sú pólitíska stefna hugnast mér að flestu leyti betur. Líklega hefur Jón Baldvin komið þeirri hugsun inn hjá mér. Sennilega er ég krati í mínu innsta eðli, jafnvel hægri krati. Veit það eiginlega ekki.

Hef ekki náð því ennþá að blogga á fésbókinni eins og sumir gera. Þó hef ég svosem reynt það, en gallinn er sá að ég skil hana ekki almennilega. Sumt sem þar fer fram er greinilega fyrir ofan (eða neðan) minn skilning. Enda er hann ekki lengur sá sami og áður var.

Ef engin stjórnmál væri um að ræða og engin fésbók til, yrði ég líklega að hætta að blogga því þá hefði ég ekkert til að agnúast útí. Ég er bara svona. Breytist kannski með tímanum, en ekki verulega.

IMG 0748Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband