2652 - Um kökuskreytingar

Sumar vísur eru þannig gerðar að þær taka sér bólfestu strax í hugskoti manns og fara ekkert þaðan. Svo dúkka þær upp þegar minnst vonum varir. Þannig er það t.d. með þessa:

Dalahalur háu nærri fjalli
hreinn og beinn í háttum var
hlýr og skýr í spjalli.

Þetta minnir mig að hafi verið ort um Sveinbjörn Beinteinsson. Ég var svo heppinn að kynnast honum smávegis. Bjarna Valtý þekkti ég hinsvegar vel. Þeir voru kunningjar og líklega Sölvar Helgasynir okkar tíma á margan hátt. Látum svo útrætt um þá.

Kosningar fara misjafnlega í menn. Ég minnist þess að hafa einu sinni á kosningadagsmorgni hitt Helga á Hrafnkelsstöðum. Hann gat auðvitað ekki um annað en kosningar hugsað, en mér hefur alltaf hálfleiðst þær. Í óspurðum fréttum sagði hann mér að þetta væri í fyrsta skipti á ævinni sem hann væri á kosningadag í Reykjavík. Biðum báðir eftir strætó á Lynghaganum þegar þetta var.

Bjarni Ben. er sagður ansi lunkinn við að skreyta kökur. Kannski hann leggi það bara fyrir sig. Mér finnst þó líklegra að hann stundi annars konar skreytni. Finnst hann hafa gert það. Stundum lýgur hann með þögninni. Sú lygi er ekki barnanna best. Stundum leggur hann áherslu á það sem kemur honum og Sjálfgræðisflokknum best, en þegir þunnu hljóði um annað.

Finnst það svolítið gráglettið að halda því fram að Sjallar og VG séu andstæðir pólar um flest. Finnst þeir eimitt vera sammála um ákaflega margt. Samstarf þeirra er það versta sem gæti komið fyrir íslenska þjóð að loknum kosningum. Það yrði sú mesta íhaldsstjórn sem sögur fara af. Ekkert er betur fallið til þess að tryggja áframhaldandi þjófnaði íhalds og hagsmunaaflanna.

Frelsið sem fylgir því að vera hættur að vinna er svosem ágætt. Maður þarf þá ekki að óttast að manni verði sagt upp vinnunni. Mikið má eflaust ganga á áður en maður verður sviftur þeirri hungurlús sem elli og eftirlaun kallast. Mín tilfinning er sú að þó sé hægt að komast af á þeirri hungurlús ef ekki þarf að borga neina húsaleigu eða þessháttar. Hart er það engu að síður að hafa stritað allt sitt líf til þess eins að komast af í ellinni.

Hvað er það sem hefur ekkert skott og enga fætur en fer þó með ofsahraða yfir land og sjó?
- Nú, auðvitað vindur sem er að flýta sér.

Auðvitað voru það mistök hjá spænsku ríkisstjórninni að taka svona hart á katalónum. Þetta er auðvelt að sjá eftirá. Tækifærið til að leiðrétta þessi mistök var heldur ekki notað. Það hefði kóngsi getað notfært sér. Hann hefði getað slegið sér verulega upp ef hann hefði ekki verið svona grimmur og ósveiganlegur. Nú er þetta orðið að stórmáli, sem hefði verið vel verið hægt að koma í veg fyrir með venjulegu snakki.

IMG 0900Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Fleira skrautlegt en kökurnar hjá sumum.

Þorsteinn Siglaugsson, 6.10.2017 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband