2636 - Druslur o.fl.

Ég vildi að sjórinn yrði að mjólk,
og undirdjúp að skyri. (framb. skeri),
Fjöll og hálsar flot og tólg. (framb. tólk),
Frón að kúasmjeri.
Uppfyllist óskin mín.
Öll vötn í brennivín.
Holland að heitum graut.
Helvíti gamalt naut.
Og Grikkland að grárri meri.

Áður fyrr. Í eldgamla daga. Semsagt fyrir mitt minni, og jafnvel löngu fyrr, sungu menn sálma í kirkjum og þurftu þessvegna að æfa sig í sálmalögum. Ekki þótti við hæfi að syngja sálmana sjálfa hvar sem er og því voru oft samdir textar um veraldleg og stundum óskáldleg efni til að syngja við sálmalögin. Þessar vísur voru oftast kallaðar druslur og samsetningurinn hér að ofan er af því tagi. Amma eða mamma hafa sennilega kennt mér þessa vísu þegar ég var lítill. Og svo heyrði ég farið með hana í útvarpinu um daginn og þá rifjaðist hún upp fyrir mér. Önnur drusla er einhvern vegin svona:

Framandi kom ég fyrst að Grund
fallegur er sá staður
stóð þar úti, þýður í lund
Jón bóndi, berrassaður,
hann bauð mér inn til sín
og gaf mér brennivín
hann sýndi mér dæturnar
þær glenntu út fæturnar,
líkaminn gjörðist graður.

Man eftir því að m.a. Baldur Óskarsson bekkjarfélagi minn að Bifröst og margir fleiri sungu þetta með mikilli tilfinningu ef farið var í rútu. Einkum man ég vel eftir fyrri hluta þessarar druslu.

 

Fyrir einhverja slysni hlustaði ég á útsendingu í útvarpinu um daginn þar sem þeir Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr voru að tala saman. Mér fannst það satt að segja endemis kjaftavaðall, en vonandi hafa einhverjir samt haft gaman af því. Mér fannst það ekki einu sinni fyndið. Mér finnst það áberandi að það séu kallaðir þættir í útvarpinu þó ekki sé gert annað en spila plötur og kjafta svolítið inn á milli. Í hæsta lagi að einhverju rusli sem aðallega eru aðgöngumiðar eða happdrættismiðar sé dreift á þá sem hringja inn. Auðvitað eru á þessu undantekningar og menn eru misjafnir. Svei mér ef innhringiþættirnir á útvarpi Sögu eru ekki skárri en sumt af þessu. Þar hafa menn þó skoðanir þó ekki sé annað.

 

Það er þetta með stytturnar. Hvítir þjóðernissinnar, Ku Klux Klanarar, Nýnasistar og annar óþjóðalýður virðist vera allfjölmennur hópur innan Bandaríkjanna og nær undantekningalaust kusu þeir Tromparann í síðustu forsetakosningum. Stytturnar minna á þrælastríðið sem Suðurríkjamenn töpuðu og þessvegna er svona mikill hávaði í kringum Trump. Sennilega kusu hann allmargir aðrir, því hann náði því að verða frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Á margan hátt hefur hann skerpt áherslur og valdið mikilli úlfúð innan ríkjasambandsins því borgarastyrjöldin, sem lauk fyrir meira en hundraðogfimmtíu árum, situr enn í fólki. Það var síðan ekki fyrr en eftir miðja síðustu öld sem blökkumenn náðu lagalegum réttindum að fullu þar og enn er víða litið niður á fólk sem ekki er hvítt.

2012 07 26 17.35.03Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband