2635 - Stjórnmál

Eiginlega ætti alveg að vera hægt að blogga fjandann ráðalausan án þess að minnast á pólitík, hvað þá flokkspólitík. Samt er það svo að öll mál má gera pólitísk. Þar að auki hef ég a.m.k. um þessar mundir mikinn áhuga á bandarískri pólitík. Sérstaklega þó ýmsu sem snertir Trump hinn ógurlega. Auk þess á ég auðvelt með að telja sjálfum mér trú um að stjórnmál séu mikilvægustu mál allra tíma. Hversvegna það er á ég ekki gott með að útskýra. Þannig er það bara.

Ýmislegt sem snertir nýjustu tækni, bókmenntir, sagnfræði, fréttir, heimspeki, listir, verslun, skák, íþróttir og ýmislegt annað getur samt hæglega vakið áhuga minn, en það er samt í minna mæli en oft áður og á tónlist hef ég engan áhuga. Þessi áhugi minn á heimsstjórnmálum og þó sérlega bandarískum er ekki nýtilkominn. Man eftir því að á tímabili var ég áskrifandi að „Time“ og hugsaði mikið um þessi mál. Íslensk stjórnmál hafa aldrei vakið áhuga minn á sama hátt. Helst af öllu vil ég sjá fyrir viðbrögð stjórnmálamanna og spá fyrir, með sjálfum mér, um þróun allskonar.

Ekki er þessi áhugi minn til vinsælda fallinn. Vinsældir nútildags hjá blaðamönnum og bloggurum allskonar koma einkum til ef menn eru nægilega stórorðir eða deila einkum því sem til vinsælda er fallið á fésbókarfjáranum. Séranir allskonar og læk finnst mér helsti gallinn á fésbókinni auk sífelldra breytinga. Þó er það um leið einn af helstu kostum hennar og með sérunum fær maður oft að vita um hluti sem annars færu framhjá manni. Stjórnmálaafskipti hverskonar leiða oft til nokkurra vinsælda. Einkum framboða allskonar. Sennilega er stærra hlutfall þjóðarinnar íslensku í framboði fyrir hina ýmsu flokka en gerist og gengur. Kannski eigum við Íslendingar enn eitt heimsmetið þar. Annað heimsmetið gæti verið í fjölda flokka. Allt er þetta miðað við fólksfjölda enda getum við sökum mannfæðar varla sett önnur heimsmet.

Kannski er ég með betri bloggurum hér á Íslandi í mínum aldursflokki. A.m.k. vex kíkjendafjöldi verulega hjá mér ef ég skrifa einhverja bölvaða dellu á vefinn hérna. Aldrei skipta þeir samt þúsundum sem leggjast svo lágt að lesa það sem ég skrifa. Ánægður er ég samt með mitt hlutskipti á þessum markaði. Ég tel mig hafa fundið upp þá aðferð að númera í áframhaldandi röð mín blogginnlegg og hef haldið því lengi áfram hér á Moggablogginu. Aðrir bloggarar eru sífellt að skipta um vettvang, en ekki hann ég. Auðvitað er þetta íhaldssemi og kannski eitthvað þaðan af verra, en ég er bara svona.

Af hverju eru allir hægri sinnar Breivikar og allir vinstri sinnar Múhameðstrúar? Ég bara spyr. Á vissan hátt er þetta flokkapólitíkin í dag. Ef þú samþykkir ekki allt sem ég segi ertu á móti mér. Og svo blandast trúmál og siðir í þetta á ófyrirséðan hátt. Best væri að vera laus við þetta alltsaman.

IMG 1285Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband